Oddi Magnús Á. Sigurgeirsson gjóskulagafræðingur mættur til fornleifafræðinganna Lilju Bjarkar Pálsdóttur og Kristborgar Þórsdóttur (fjær).
Oddi Magnús Á. Sigurgeirsson gjóskulagafræðingur mættur til fornleifafræðinganna Lilju Bjarkar Pálsdóttur og Kristborgar Þórsdóttur (fjær). — Ljósmynd/Ágúst Sigurðsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Fornleifafræðingar hafa fundið ummerki um fallna manngerða hella í túninu í Odda á Rangárvöllum í forrannsókn á fornleifum. Undir hruni úr hellisloftinu á miklu dýpi eru mannvistarlög.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fornleifafræðingar hafa fundið ummerki um fallna manngerða hella í túninu í Odda á Rangárvöllum í forrannsókn á fornleifum. Undir hruni úr hellisloftinu á miklu dýpi eru mannvistarlög. Vegna jarðvegsþykktarinnar gætu þau verið forn en eftir er að greina aldur þeirra með frekari úrvinnslu gagna.

Oddafélagið sem er áhugafélag um endurreisn Oddastaðar hefur lengi viljað fara í fornleifarannsókn í Odda. Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur hjá fyrirtækinu Fornleifastofnun Íslands, gerði þriggja ára áætlun um rannsókn á manngerðu hellunum sem þar eru taldir vera, sögu staðarins og fleira. Ekki fékkst styrkur úr Fornminjasjóði til rannsókna í sumar en eigi að síður ákvað Oddafélagið að hefjast handa með gerð prufuskurða á tveimur stöðum þar sem sjáanleg eru á yfirborði ummerki um stóra fallna hella.

Nauthellir og Sæmundarfjós

Meðal örnefna þarna eru dældir sem kallaðar eru Sæmundarfjós, kennt við Sæmund fróða í Odda, og Nauthellir. Um síðarnefnda hellinn er til frásögn frá tólftu öld, í Jarteinabók Þorláks helga Þórhallssonar hins helga, biskups, sem Páll biskup lét lesa upp á Alþingi árið 1199. Þar er skráð að þegar hellirinn féll hafi tólf naut orðið undir og öll drepist nema eitt. Aðeins sást í höfuð uxans en ofan á honum nærri mannhæðar bjarg. Þegar menn voru að höggva bjargið ofan af nautinu var heitið á hinn sæla biskup. Eftir að uxinn var reistur við og leiddur út úr hellinum gekk hann í annan helli og át mat sinn og var ekki bein brotið.

Sagan var ein af mörgum frásögnum til sönnunar á helgi Þorláks en er jafnframt elsta ritaða heimildin um manngerða hella á Íslandi. Kristborg tekur fram að ekki hafi beinlínis verið leitað að Nauthelli en segir þó að gaman væri ef í ljós kæmi að fornar heimildir og fornleifar gætu stutt hvorar aðrar.

Í fyrri prufuskurðinum sem tekinn var í Hellirsdal kom í ljós að mikill jarðvegur hefur safnast yfir hinn hrunda helli og voru 2-3 metrar ofan á mannvistarlög. Hún og Lilja Björk Pálsdóttir fornleifafræðingur voru enn að vinna í seinni prufuskurðinum þegar rætt var við hana í gær. Kom í ljós afar merkilegt mannvirki, hellismunni þremur metrum undir yfirborðinu og leifar af torfhlöðnum forskála.

Einstakt tækifæri til rannsókna

Gjóskulagafræðingur hefur kannað aðstæður en eftir er að rannsaka betur rannsóknargögn til að sjá hversu gömul mannvistarlögin eru.

Ekki hefur áður verið grafið í forna manngerða hella hér á landi. „Þetta er einstakt tækifæri til að rannsaka forna hella og tímasetja hrun þeirra. Ef við finnum gólflög og sýni til að aldurgreina getum við komist að því hvenær hellirinn var í notkun,“ segir hún.

Hellarnir eru grafnir inn í sandsteinslag sem er undir túninu. Talið er að slíkir hellar hafi yfirleitt verið notaðir sem skepnuhús, eins og sagan um Nauthelli bendir til.

Þessi forrannsókn stóð aðeins yfir í þrjá daga. Búið er að moka ofan í fyrri skurðinn og reynt verður að varðveita mannvirkið í seinni skurðinum enda vill Kristborg halda áfram þar. Þá þarf að vinna úr upplýsingunum. Kristborg vonar að hægt verði að ráðast í frekari rannsóknir. Af nógu sé að taka í Odda.