Gæði Humar er herramannsmatur en afli hefur minnkað síðustu ár.
Gæði Humar er herramannsmatur en afli hefur minnkað síðustu ár. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Humarvertíð hefur verið slök til þessa í sögulegu samhengi, að sögn Guðmundar Gunnarssonar, nýsköpunarstjóra hjá Skinney Þinganesi á Hornafirði.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Humarvertíð hefur verið slök til þessa í sögulegu samhengi, að sögn Guðmundar Gunnarssonar, nýsköpunarstjóra hjá Skinney Þinganesi á Hornafirði. Síðasta ár var einnig lélegt í humrinum, en aflinn í ár er heldur minni en í fyrra.

Guðmundur segir að það sé jákvætt að í ár hafi meira fengist af smáum humri. Stór humar veiðist eins og síðustu vertíðir, en minna af millihumri, sem oft hefur borið uppi veiðina. Ekki sé óeðlilegt að lítið fáist nú af millihumri miðað við litla nýliðun síðustu ár.

Humarvertíðin hófst í marsmánuði og voru skipin fyrst á austursvæðinu frá Lónsdýpi yfir í Skeiðarárdýpi. Upp úr sjómannadegi héldu skipin vestur á bóginn og hafa m.a. reynt fyrir sér í Jökuldýpi og suður af Eldey.

Sveiflur í humarveiðum

Guðmundur segir að aflabrögð skáni oft með auknum veiðanleika þegar þorskurinn sé genginn af grunninu út á djúpin. Vertíðin standi frá mars fram í október þannig að enn sé tími til stefnu.

„Sveiflur hafa gjarnan verið í humarveiðum og í ár er ekki alveg komin mynd á þetta,“ segir Guðmundur. „Það hefur lengi fylgt humrinum að veiðin getur verið blettótt og oft þarf lagni til að finna hvar hann gefur sig og á hvaða tíma sólarhrings. Jökuldýpi er til dæmis þekkt slóð en þar veiddist ekki humar í um 20 ár. Svo blossaði upp stór humar á svæðinu, en samt er vitað að humar er staðbundin tegund.

Það eru fleiri breytur en stofnstærð, sem þarf að hafa í huga þegar kemur að humarveiðum, ekki síst veiðanleikinn. Humarinn er holudýr og liggur stærstan hluta sólarhrings í holunni, en ýmis skilyrði geta síðan orðið til þess að hann er ekki á róli, til dæmis mikil fiskgengd.“

Aflamark í humri er 1.150 tonn á þessu fiskveiðiári og er þá miðað við heilan humar. Á heimasíðu Fiskistofu er hins vegar miðað við slitinn humar og er aflamarkið þá alls 467 tonn með sérstökum úthlutunum og flutningi á milli ára. Búið er að veiða tæplega 150 tonn, en mestu af humrinum er landað á Höfn í Hornafirði, í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn.

Aukin sala innanlands

Guðmundur segir að grunnmarkaður fyrir humar sé Suður-Evrópa, en þangað fer einkum heill humar. Sala á humarhölum hefur hins vegar aukist verulega á innanlandsmarkaði á síðustu árum, m.a. með auknum fjölda ferðamanna.