[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Bragi Sveinsson fæddist á Sauðárkróki 9.6. 1968 og ólst þar upp. Hann gekk í barnaskóla á Sauðárkróki, lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki 1989 og nam atvinnulífsfélagsfræði við HÍ 1995-99.

Gunnar Bragi Sveinsson fæddist á Sauðárkróki 9.6. 1968 og ólst þar upp. Hann gekk í barnaskóla á Sauðárkróki, lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki 1989 og nam atvinnulífsfélagsfræði við HÍ 1995-99.

Gunnar var verslunarstjóri Ábæjar 1989-90, verkamaður og gæslumaður í Steinullarverksmiðjunni 1989-91, verslunarstjóri Ábæjar 1991-95, sölu- og verslunarstjóri hjá Skeljungi hf. 1996-97, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra 1997-99, markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni 1999, starfaði á verslunarsviði Kaupfélags Skagfirðinga 2000-2002, framkvæmdastjóri Ábæjar 2002-2003 og framkvæmdastjóri Ábæjar-veitinga ehf. 2004-2006.

Gunnar sat í stjórn knattspyrnudeildar og skíðadeildar UMF Tindastóls, starfaði með Leikfélagi Sauðárkróks, gekk í Félag ungra framsóknarmanna í Skagafirði er hann hafði aldur til og starfaði innan flokksins til 2017 er hann gekk til liðs við Miðflokkinn. Hann var formaður Félags ungra framsóknarmanna, varaformaður Kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra, var í kjöri í bæjarstjórnarkosningum 1990 á Sauðárkróki, var varabæjarfulltrúi og átti sæti í félagsmálaráði Sauðárkróks og fleiri nefndum, varð oddviti framsóknarmanna í sveitarstjórn Skagafjarðar 2002-2009, var annar varaforseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2002-2006, varaforseti 2006-2009, formaður byggðaráðs Skagafjarðar 2006-2009, varaformaður atvinnu- og ferðamálanefndar Skagafjarðar 2006-2009, formaður Gagnaveitu Skagafjarðar 2006-2009, formaður stjórnar Norðurár bs., sorpsamlags, 2006-2009, formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra 2006-2009, sat í stjórn Hátækniseturs Íslands ses. 2007-2009, í menningarráði Norðurlands vestra 2008-2009 og í stjórn Húsnæðissamvinnufélags Skagafjarðar. Hann var stjórnarmaður í Hússjóði Öryrkjabandalags Íslands 1998-2000, formaður stjórnar Varasjóðs Viðbótarlána 1998-2002 og síðar varaformaður.

Gunar var alþingismaður Norðvesturkjördæmis 2009-2017 fyrir Framsóknarflokkinn og er núna þingmaður Suðvesturkjördæmis fyrir Miðflokkinn. Hann var utanríkisráðherra 2013-2016 og sjávarútvegs- og land-búnaðarráðherra 2016-2017. Hann er formaður Íslandsdeildar þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Gunnar gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir Framsóknarflokkinn og sat m.a. í miðstjórn flokksins. Gunnar gekk til liðs við Miðflokkinn 2017 eftir að varaformaður Framsóknarflokksins klauf flokkinn á flokksþingi haustið 2016. Gunnar var kjörinn formaður þingflokks Miðflokksins haustið 2017 og varaformaður Miðflokksins í apríl 2018.

Fjölskylda

Gunnar kvæntist 7.5. 2003, Elvu Björk Guðmundsdóttur, f. 1.4. 1969, hárgreiðslukonu og húsmóður, þau skildu. Elva er dóttir Guðmundar Frímannssonar húsasmiðs og Sigurlaugar Guðmundsdóttur húsmóður en þau eru bæði látin.

Börn Gunnars og Elvu Bjarkar eru Arnar Þór Sigurðsson, f. 1.2. 1988, starfsmaður Origo í Reykjavík, en unnusta hans er Þórdís Gísladóttir; Frímann Viktor Sigurðsson, f. 21.10. 1988, loðdýrabóndi en kona hans er Ditte Clausen og eiga þau tvo syni, Hermann Ágúst og Valdimar Ými; Sveinn Rúnar, f. 5.6. 1993, smiður og lögregluþjónn en sambýliskona hans er Erna Kristjánsdóttir og eiga þau eina dóttur, Emmu Dallilju; Ingi Sigþór, f. 22.7. 2000, nemi, og Róbert Smári, f. 22.7. 2000, nemi.

Gunnar er í sambandi með Sunnu Gunnars Marteinsdóttur og á hún eina dóttur, Guðrúnu Margréti.

Bræður Gunnars eru Björgvin Jósafat Sveinsson, f. 28.7. 1962, trésmiður og verkstjóri á Sauðárkróki, og Atli Freyr Sveinsson, f. 20.1. 1971, framkvæmdatjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Foreldrar Gunnars: Sveinn Friðvinsson, f. 19.9. 1938, d. 25.6. 2017, lengst af innheimtustjóri Sauðárkróksbæjar, og Ingibjörg Jósafatsdóttir, f. 13.5. 1940, fyrrv. verslunarmaður og matráður á Sauðárkróki.