Tilfinningaflóð Jessie hreyfði mjög við gestum með tónum sínum og tali, eins og sjá má.
Tilfinningaflóð Jessie hreyfði mjög við gestum með tónum sínum og tali, eins og sjá má.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Drjúgur tími fór einnig í að leyfa ungum upprennandi söngvurum sem stóðu næst sviðinu að spreyta sig með míkrófóninn og þó að það hafi verið gaman fyrir þau útvöldu verður að segjast að það var ekki mjög gaman fyrir alla hina.

Af tónleikum

Þorgerður Anna Gunnarsd.

thorgerdur@mbl.is

Eins oft og drottningin Jessie J talaði um hversu mikið hún elskar að syngja hefði kona haldið að hún myndi þá syngja meira á tónleikum sínum í Laugardalshöll á miðvikudagskvöld, 6. júní. Íslenskir aðdáendur söngkonunnar höfðu beðið eftir henni mánuðum saman eftir að tónleikunum hafði verið frestað vegna þátttöku hennar í hæfileikakeppni í Kína. Þeir þurftu að bíða enn lengur þegar mætt var í Laugardalshöll, en dívan steig ekki á svið fyrr en klukkustund eftir að skemmtilegri upphitun Karítasar Hörpu hafði lokið.

Söngkona eða lífsstílsþjálfi?

Jessie J steig loks á svið og kom inn af ágætum krafti, þó hún hafi hægt talsvert á laginu „Who You Are“. Undirrituð fór einnig á tónleika söngkonunnar þegar hún var hér á landi árið 2015 og þá hafði Jessie J einmitt hægt talsvert á flestum lögum sínum. Svipað var uppi á teningnum á miðvikudagskvöldið.

Raunar fór um helmingur tónleikanna í sögustund og uppörvandi ræður. Jessie hefur greinilega átt erfitt með að velja á milli þess að verða söngkona eða lífsstílsþjálfi, slíkar voru klisjurnar sem ultu upp úr henni á milli laga. Vissulega er hún mjög góð fyrirmynd ungra stúlkna, sem einmitt voru meirihluti gesta í Laugardalshöll þetta kvöld. Drjúgur tími fór einnig í að leyfa ungum upprennandi söngvurum sem stóðu næst sviðinu að spreyta sig með míkrófóninn og þó að það hafi verið gaman fyrir þau útvöldu verður að segjast að það var ekki mjög gaman fyrir alla hina.

Jessie stóð sig með prýðu á meðan hún söng en að þriggja og hálfrar klukkustundar löngum tónleikum loknum voru eflaust margir fegnir að komast aftur út í blíðviðriskvöldið.