Víglundur Pálsson fæddist á Hauksstöðum í Vopnafirði 25. maí 1930. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sundabúð í Vopnafirði 28. maí 2018.

Foreldrar hans voru Páll Methúsalemson, f. 24.8. 1899, d. 1975, og Svava Víglundsdóttir, f. 25.9. 1906, d. 1935. Seinni kona Páls var Sigríður Þórðardóttir frá Ljósalandi, f. 19.4. 1908, d. 1997, gekk hún börnum Páls í móðurstað er hún giftist honum 26.6. 1940. Reyndist hún þeim sem besta móðir. Fyrir voru Svanborg Björnsdóttir, amma Víglundar, og Margrét Víglundsdóttir, móðursystir hans, sem tóku að sér heimilið og börnin eftir andlát Svövu.

Alsystkini Víglundar eru: Björn Pálsson, f. 1931. Guðlaug Pálsdóttir, f. 1932, d. 2012. Erlingur Pálsson, f. 1933. Hálfsystkini: Svava Pálsdóttir, f. 1941. Þórður Pálsson, f. 1943. Ásgerður Pálsdóttir, f. 1946. Gunnar Pálsson, f. 1948, d. 2016.

Víglundur kvæntist Jóhönnu Kristbjörgu Einarsdóttur, f. 1928, d. 2003, þau skildu 1975. Börn Víglundar og Jóhönnu: Uppeldissonur Víglundar: Aðalgeir Bjarkar, f. 1945, d. 2017. Svanborg S. Víglundsdóttir, f. 1953, m. Ellert Árnason, f. 1946. Svava Víglundsdóttir, f. 1955, m. Unnsteinn Arason, f. 1941. Einar Víglundsson, f. 1957, m. Jóhanna Rögnvaldsdóttir, f. 1966. Anna Pála Víglundsdóttir, f. 1960, m. Gunnar Róbertsson, f. 1954.

Víglundur og Elín giftu sig 13. janúar 2018. Börn þeirra eru: Selma Dögg Víglundsdóttir, f. 1975, m. Geirmundur Júlíusson Hauksson, f. 1975. Hilmir Víglundsson, f. 1976, m. Sólveig Andrea Jónsdóttir, f. 1974. Stjúpbörn Víglundar: Ester Jóhannsdóttir, f. 1952, m. Albert Már Steingrímsson, f. 1949. Grétar Ólafsson, f. 1960, m. Kolbrún Steingrímsdóttir, f. 1961. Kristján Stefánsson, f. 1964, m. Sólveig Erla Hinriksdóttir, f. 1967.

Afabörn Víglundar eru 44 talsins.

Útför hans fór fram frá Vopnafjarðarkirkju 8. júní 2018.

Þannig týnist tíminn. Tíminn er afstæður, stundum finnst manni eins og hann standi í stað og muni vara að eilífu. En allt tekur enda, ekkert er eilíft.

Á þetta var ég minnt með trega þegar þú kvaddir þennan heim, elsku pabbi minn, þann 28. maí síðastliðinn. Aðstæður mínar voru þannig að ég gat ekki komið og dvalið hjá þér í veikindum þínum eða setið hjá þér þínar síðustu stundir hér á jarðríki. Þú lést mig lofa þér, eins og þú orðaðir það sjálfur, að vera ekki að þvælast austur á meðan Unnsteinn ætti í harðri baráttu við erfið veikindi ásamt öðru og við það stóð ég. Á 88 ára afmælinu þínu 25. maí síðastliðinn heyrði ég síðast rödd þína sem er mér ljúf minning.

Elsku pabbi, þú áttir langt og farsælt líf, þú varst einstaklega vel af Guði gerður; ljúfur maður, æðrulaus, heiðarlegur og hvers manns hugljúfi. Þú varst ávallt tilbúinn að greiða götur annarra, leiðbeina, vera til staðar og rétta hjálpar- og sáttarhönd. Ég sá þig nánast aldrei skipta skapi nema ef vera skyldi í kringum kosningar enda varstu pólitískur og hafðir sterkar skoðanir á málefnum nærsamfélagsins þíns sem og þjóðmálum.

Elsku pabbi, þú varst einstakur og gerðir hvern dag sérstakan. Úr barnæsku minni á ég ljúfar og góðar minningar sem of langt væri að rekja hér. Okkar samband samanstóð alltaf af ást, trausti og virðingu. Oft áttum við einlæg og góð samtöl sem við ræddum ekki við aðra og ég mun geyma í hjarta mínu. Við vorum pínu lík, pabbi minn, og áttum skemmtilega og góða samleið. Enda vorum við aðeins fyrir utan rammann og fórum okkar eigin leiðir, fyrir það er ég þakklát.

Þú varst mikill gleðinnar maður, naust þín vel á meðal fólks. Þú varst gæddur einstaklega góðum frásagnarhæfileikum, hafðir góðan húmor og varst sögumaður mikill, enda vel gefinn og skemmtilegur.

Þú varst afar fylginn þér í orði og verki og þínar ákvarðanir stóðust. Þegar þú slökktir í síðustu sígarettunni þá var það sú síðasta. Þegar þú kvaddir Bakkus var það ekkert múður, þar var innistæðulaus bankabók og engin lán að fá. Þú varst góð fyrirmynd. Þegar mestu erfiðleikarnir steðjuðu að hjá mér varst þú mín sterkasta stoð. Þá var gott að eiga sterka hönd og hlýjan faðm að halla sér að og það var þinn faðmur, elsku pabbi, þangað mun ég alltaf geta leitað.

Þú varst einstakur faðir og afi. Ég veit að þú elskaðir okkur öll. Hlýjar þakkir fyrir allt. Ég veit að heimkoma þín verður falleg, minning þín lifir í ljósi, ást og kærleika.

Ég horfi í ljóssins loga

sem lýsir í hugskot mitt

og sé á björtum boga

brosandi andlit þitt.

(Snjólaug Guðm.)

Ég kveð þig eins og ég gerði alltaf. Bless, pabbi minn, ég elska þig, þín dóttir,

Svava.