Verjast Ólafur Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson í hörðum slag við Aidenas Malasinkas í leiknum í Vilníus í gær.
Verjast Ólafur Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson í hörðum slag við Aidenas Malasinkas í leiknum í Vilníus í gær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vilnius Kristján Jónsson kris@mbl.

Í Vilnius

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon átti virkilega góðan leik í skyttustöðunni hægra megin þegar Ísland gerði jafntefli 27:27 við Litháen í fyrri umspilsleik þjóðanna um sæti á HM karla í handknattleik 2019 í Vilníus í gær. Ómar sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki átta sig á því hvers vegna Ísland missti niður þriggja marka forskot í síðari hálfleik eftir góða frammistöðu í þeim fyrri. „Ég veit það eiginlega ekki og þyrfti að kíkja á leikinn til að svara því almennilega. En þá fóru hlutirnir að ganga upp hjá þeim en ákveðnir þættir leiksins gengu illa hjá okkur. Bæði í vörn og sókn en Bjöggi var flottur í markinu. Þegar Litháarnir jöfnuðu og komust yfir þá var mikil keyrsla á þeim. Við þurfum að standa í fæturna þegar slíkt gerist enda koma öll lið með áhlaup. Þá er spurning hvort við getum tæklað það,“ sagði Ómar en varðandi sóknarleikinn þá hefði hann mátt vera hraðari að mati Ómars. „Sóknin var allt í lagi á köflum en við vorum kannski svolítið hægir og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Við þurfum að gera ákveðnari árásir og þá erum við í flottum málum.“

Vignir Svavarsson er öllu reyndari leikmaður en Ómar og lék sinn fyrsta mótsleik um nokkra hríð. Vignir gat ekki gefið kost á sér á EM í Króatíu í janúar. Hvernig þótti honum að taka slaginn á ný með landsliðinu?

„Þetta var rosa gaman enda alltaf gaman að spila með landsliðinu. Sérstaklega þegar eitthvað er undir. Tilfinningin var virkilega góð,“ sagði Vignir sem hóf leikinn í hjarta varnarinnar. „Varnarleikurinn gekk upp og ofan. Mér fannst við hafa ágæta stjórn á þeim megnið af fyrri hálfleik. Við vorum kannski í meiri vandræðum með þá í seinni hálfleik og þá sérstaklega hraðapphlaupin og þegar þeir tóku hraða miðju. Þeir voru svipaðir og við höfðum undirbúið okkur fyrir en við leystum það ekki alveg rétt. Hjá okkur var fullt af hlutum sem við getum bætt og gert betur. Nú höfum við ágætan tíma fram á miðvikudag til að vinna í því,“ sagði Vignir Svavarsson við Morgunblaðið í Siemens-höllinni.