Kristján Gunnar Valdimarsson
Kristján Gunnar Valdimarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Kristján Gunnar Valdimarsson, lögmaður og lektor við lagadeild Háskóla Ísland, segir Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmann hafa ranglega fullyrt í Morgunblaðinu í gær að stjórnmálasamband Íslands og Máritaníu hefði verið aukaatriði í dómsmáli. Var þar tekist á um hvort Íslendingur hefði haft skattalega heimilisfesti í Vestur-Afríkuríkinu Máritaníu á árunum 2006-10. Lagði maðurinn m.a. fram vottorð til sönnunar búsetu í landinu.

Úrskurður yrði felldur úr gildi

Maðurinn krafðist þess aðallega að felldur yrði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra frá árinu 2016 um skattalega heimilisfesti hans og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi 2006-2010. Héraðsdómur sýknaði ríkið í fyrravor. Hæstiréttur staðfesti dóminn í maí (418/2017).

Einar Karl sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að spurningin um stjórnmálasamband ríkjanna væri aukaatriði í málinu. Aðalatriðið væri að ekki væri í gildi tvísköttunar- og upplýsingaskiptasamningur milli þeirra.

Misskilningur ríkislögmanns

„Einar segir þetta atriði um stjórnmálasamband, og að ekki sé hægt að staðreyna vottorðin til grundvallar sönnun, vera „aukaatriði“ í málinu. Það er ekki rétt og einhver misskilningur því þarna er deilt um skattalega heimilisfesti,“ segir Kristján Gunnar.

„Ísland á engan rétt til skattlagningar ef engin er heimilisfestin. Þ.e.a.s. það verður að vera heimilisfesti á Íslandi. Því skiptir tvísköttunarsamningur ekki máli, enda eru ríkin með slíkum samningum að skipta á milli sín skattlagningarrétti. Slíkt á ekki við hafi maðurinn ekki heimilisfesti á Íslandi. Upplýsingaskiptasamningar skipta heldur ekki máli. Því ef einstaklingurinn hefur ekki skattalega heimilisfesti á Íslandi þarf ekki að skiptast á upplýsingum.“

Viðurkenndi rangar forsendur

„Maðurinn var að sýna fram á búsetu í Máritaníu og leggur fram vottorð þess efnis sem ekkert mark er tekið á vegna rangra forsendna. Ríkislögmaður viðurkennir að þessar forsendur séu rangar hjá honum. Hann hafi gleymt að leiðrétta þetta fyrir Hæstarétti en áður hafði hann haldið þessu fram fyrir héraðsdómi.

Hann vill þó lítið gera með þetta þar sem þetta skipti ekki máli. Auðvitað getur hann ekki fullyrt um það. Ríkislögmaður hélt fram rangri fullyrðingu sem verður forsenda niðurstöðu Hæstaréttar og hann á að hafa frumkvæði að því og krefjast endurupptöku og þarf ekki að bíða gagnaðila í þeim efnum. Ríkið þarf að sýna auðmýkt í svona málum en án auðmýktar mun traust almennings á réttarkerfinu minnka,“ segir Kristján Gunnar.