Slayer á leið í Dalinn 2018. Paul Bostaph, Kerry King, Tom Araya og Gary Holt.
Slayer á leið í Dalinn 2018. Paul Bostaph, Kerry King, Tom Araya og Gary Holt. — Ljósmynd/Bad Feeling Magazine
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Málmur mun flæða um djöflaeyjuna í sumar í boði ekki minni banda en Slayer, Guns N' Roses , Kreator, Skálmaldar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Málmhausar munu verða nokkurri flösu fátækari. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Væri nafnið Málmey ekki frátekið væri við hæfi að nota það um gömlu góðu Ísafold í sumar. Hingað streyma málmsögulegir risar og íslenskir hrímþursar láta að vonum ekki sitt eftir liggja. Sjaldgæft er að jörð hvítni á þessum tíma árs en Haraldur „slagveður“ Ólafsson, Einar „roðbrók“ Sveinbjörnsson og félagar á Veðurstofunni geta búið sig undir slíka spá á næstu vikum; nema hvað ekki verður um snjó að ræða, heldur hreina og ómengaða flösu. Þar sem tveir flösufeykjar koma saman þar hvítnar jörð, eins og bóndinn sagði. Að ekki sé talað um tuttugu þúsund, eins og stefnt er að á Laugardalsvellinum. Hvað sagði Bruce „Íslandsvinur“ Dickinson aftur um árið? „Guð, miskunnaðu oss!“

Veislan byrjar í Laugardalnum eftir þrettán daga og sextán klukkustundir (að því gefnu að þú sért að lesa þetta blað klukkan sex árdegis á laugardegi, eins og ég). Ekki svo að skilja að nokkur maður sé að telja. Þá stíga á svið á Secret Solstice-hátíðinni í Laugardalnum ekki minni menn en Tom Araya, Kerry King og félagar í hinu goðsögulega kaliforníska bandi Slayer. Ganga má út frá því að fjöldi túrista heimti þá endurgreiðslu frá ferðaskrifstofum sínum enda mun í fyrsta skipti verða almyrkvað á sumarsólstöðum hér í fásinninu. En eins og menn vita þá varð Slayer til þegar sjálfur frumkrafturinn sængaði hjá hinu illa. Úr brotnum himninum og biksvörtum skýjunum mun rigna tæru blóði. Enginn sem sækja mun þennan viðburð verður samur á eftir. Því er óhætt að lofa. Gleymum því heldur ekki að yfirstandandi túr er svanasöngur Slayer.

Eistun fara á flug

Dagana 11. til 14. júlí berst leikurinn austur á firði, þar sem nýir húsbændur hrinda sinni fyrstu Eistnaflugshátíð af stokkunum. Þar ber hæst tónleika annarra frumherja þrassbylgjunnar, sem eirir engu. Kreator frá Þýskalandi. Mille Petrozza og félagar eru enn að eftir 36 ár og komu síðast með plötu í fyrra sem heitir því alúðlega nafni Gods of Violence. Væntanlega bíða þó fleiri eftir efni af plötum á borð við Endless Pain og Pleasure to Kill. Já, krakkar mínir, þetta eru engar vögguvísur. Rétt eins og Slayer hefur Kreator haft gríðarleg áhrif á senuna alla; ekki aðeins þrassið, heldur ekki síður dauða- og drungarokkið. Réttnefndir guðfeður.

Á Eistnaflugi í ár verða einnig spennandi íslenskar sveitir á borð við Auðn, Kontinuum, The Vintage Caravan og Legend, að ekki sé minnst á gömlu góðu Sólstafi. Myndrænasta band í heimi. Þarna verður líka Hatari með fyrrverandi umsjónarmann Barnablaðs Morgunblaðsins í broddi fylkingar. Sá mun aldeilis skyrpa svívirðingum yfir mannskapinn; dagfarsprúður sem hann er.

Eftir þá dembu mýkja menn sig aðeins upp á Laugardalsvellinum hinn 24. júlí þegar frægasta málmband mannkynssögunnar, fyrir utan Metallica, kemur í heimsókn. Já, við erum að tala um Guns N' Roses. Axl, Slash og Duff sameinaðir á ný. Úr því Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri-græn gátu unnið saman hlutu þessir gömlu fjandvinir að slíðra sverðin. Nú, eða byssurnar. Hver veit svo sem með þessi annálaðu ólíkindatól? Þeir gætu hæglega verið hættir saman fyrir 24. júlí – og byrjaðir saman aftur. Nei, nei. Smá djók. Slash þótti svo gaman á Íslandi fyrst þegar hann kom hingað með Velvet Revolver (sem gerðist raunar aldrei, stóð bara til) að hann kom aftur með sólóbandi sínu. Og nú loksins með GNR. Inga Rún Sigurðardóttir, vinkona mín hér á blaðinu, ræddi þessa fyrstu „heimsókn“ við Slash í síma og kunni ekki við að hryggja hann með þeim hroðalegu tíðindum að hann hefði í raun og veru aldrei komið. Tónleikunum var aflýst.

Það mun ekki gerast nú. Málmsagan endar alltaf vel. Eins og önnur ævintýri.