Whitney Houston tróð upp á afmælistónleikum Nelsons Mandela.
Whitney Houston tróð upp á afmælistónleikum Nelsons Mandela. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tímarnir breytast og sjónvarpið með. Árið 1988 voru tvær sjónvarpsstöðvar á Íslandi og ekki er úr vegi að skoða hvað þær höfðu á boðstólum fyrir réttum þrjátíu árum, aðra helgina í júní. Ríkissjónvarpið hóf helgina síðdegis á föstudegi með fótbolta.

Tímarnir breytast og sjónvarpið með. Árið 1988 voru tvær sjónvarpsstöðvar á Íslandi og ekki er úr vegi að skoða hvað þær höfðu á boðstólum fyrir réttum þrjátíu árum, aðra helgina í júní.

Ríkissjónvarpið hóf helgina síðdegis á föstudegi með fótbolta. Og það af dýrari gerðinni. Sýnt var beint frá opnunarhátíð Evrópumeistaramótsins í Vestur-Þýskalandi og á eftir fylgdi fyrsti leikur mótsins, viðureign heimamanna og Ítala. Umsjón hafði Ingólfur „rembingskoss“ Hannesson en vafalaust hefur Bjarni Felixson lýst leiknum af sinni alkunnu snilld.

Um kvöldið voru tveir framhaldsþættir á dagskrá; Basl er bókaútgáfa, sem á frummálinu kallaðist Executive Stress. Man einhver eftir honum? Og svo var það góðkunningi skjáfíkla, sjálfur Derrick. Fer ekki að koma tími á að endursýna hann?

Stöð 2 var með kynningu á hljómsveitinni The Christians sem væntanleg var á Listahátíð í Reykjavík og þá var á dagskrá lokaþáttur Ekkjanna (Widows II). Þar hefur vafalaust gengið á ýmsu. Þá var stöðin í sumarskapi með listamönnum en ekki fer frekari sögum af þeim þætti í dagskrárkynningu Morgunblaðsins.

Sungið fyrir Mandela

RÚV var með meiri fótbolta á laugardeginum en burðarliðurinn þann dag var eigi að síður bein útsending frá 70 ára afmælistónleikum Nelsons Mandela, sem á þeim tíma sat ennþá í fangelsi. Fram komu Whitney Houston, George Michael, Dire Straits og fleiri eitís-hetjur. Þá var á dagskrá þáttur með manni sem fáir vilja kannast við í dag, Fyrirmyndarfaðir eða The Cosby Show.

Heimir Karlsson stjórnaði ítarlegum íþróttaþætti á Stöð 2 og um kvöldið var röðin komin að hinum eitursvala Hunter og hinni seiðandi samstarfskonu hans Dee Dee MacCall. Einhverjar handbremsubeygjur hafa verið teknar í þeim þætti. Að vanda. Þá var þarna gamanþátturinn Dómarinn (Night Court) sem einhverjir muna vafalaust eftir.

EM í fótbolta var áfram í forgrunni hjá RÚV á sunnudeginum en um kvöldið var kynning á Listahátíð í Reykjavík, auk þess sem boðið var upp á danskan þátt, Allir elska Debbie. Fjallaði hann um sextán ára stúlku sem átti erfitt með að ná fótfestu í lífinu, ekki síst vegna erfiðleika heima fyrir.

Stöð 2 var menningarleg á sunnudeginum en þá var á dagskrá „ópera mánaðarins“. Don Giovanni með landsliði sænskra söngvara. Björgúlfur Lúðvíksson var með golfþátt síðdegis. Um kvöldið birtist John Ritter á skjánum í hlutverki lögregluþjónsins Hoopermans. Spjallþáttur Michaels Aspels, sem naut vinsælda á þessum tíma, var á síðkvöldi og enginn annar en James Bond lokaði helginni í eðalmyndinni Octopussy.

Og fóru sáttir í háttinn.