Nú ætla ég ekki að alhæfa neitt en stundum finnst mér eins og ég sé staddur í miðjum þinglokasamningum, það stefni allt í tóma vitleysu og einhvern veginn eigi ég á hættu að sitja uppi með allskonar hluti sem ég vissi ekki einu sinni að ég bæri ábyrgð á.

Einhvern veginn held ég að það sé ekki botnlaust stuð að vera kvæntur stjórnmálamanni. Þá er ég ekki bara að tala um allar fjarvistirnar, símtölin á öllum tímum sólarhrings, fríin sem fokkast upp út af einhverjum stormi í vatnsglasi og það allt, heldur meira svona hvernig og hvort fólk í ólíkum stéttum tekur vinnuna og menninguna sem henni fylgir með sér heim. Maður á ekkert endilega á hættu að vera í stanslausum tannsteinshreinsunum þótt maður sé giftur tannlækni og ég hef heyrt að rafvirkjar séu lítið í að gera við heima hjá sér. Ég hef samt sem áður ástæðu til að ætla að maður sé ekki jafnöruggur í sambúð með stjórnmálamanni.

Og af hverju er ég að velta þessu fyrir mér? Jú, konan mín var spurð að því í viðtali um síðustu helgi hvort hún ætlaði ekki að fara í framboð. Þetta er reyndar spurning sem hún hefur fengið skrilljón sinnum, en sem betur fer held ég að hún geri sér ágætlega grein fyrir því hvernig lögmálið um framboð og eftirspurn virkar í stjórnmálum: Það er bara eftirspurn eftir fólki þangað til það fer í framboð.

Þessi ágæta eiginkona mín hefur unnið við stjórnmál í nokkur ár og mér finnst ég taka eftir ákveðinni breytingu á henni. Nú ætla ég ekki að alhæfa neitt en stundum finnst mér eins og ég sé staddur í miðjum þinglokasamningum, það stefni allt í tóma vitleysu og einhvern veginn eigi ég á hættu að sitja uppi með allskonar hluti sem ég vissi ekki einu sinni að ég bæri ábyrgð á.

Sennilega er best að taka dæmi.

Einu sinni hringdi hún í mig og sagði að bíllinn væri bilaður. Það væri ómögulegt að snúa lyklinum og það væri alveg sama hvað hún gerði. Ég yrði bara að gjörasvovel að koma og sækja hana og skutla henni í vinnuna.

Nokkrum mínútum síðar hringdi hún aftur og þá var aðeins annar tónn í henni:

S: Ég kom bílnum í gang.

L: Hvernig?

S: Æ, bara... Það var smá vesen með lyklana.

L: Hvernig þá?

S: (Nokkuð löng þögn) Ég var með lyklana að hinum bílnum.

L: Ha?

S: AF HVERJU ERU LYKLAKIPPURNAR ALVEG EINS?

Þetta er nefnilega tækni stjórnmálamanna. Að snúa vörn í sókn. Þetta var semsagt mér að kenna fyrir að hafa ekki aðgreint lyklakippurnar betur.

Svo fengum við okkur annan bíl, rafmagnsbíl þar sem maður þarf ekki einu sinni að snúa lykli. Þá hélt ég að þessi vandamál væru úr sögunni.

Þegar við erum búin að eiga hann í nokkra daga kemur símtal:

S: Bíllinn er eitthvað bilaður.

L: Hvernig þá?

S: Það er ekki hægt að setja í bakkgír og ekki hægt að snúa stýrinu.

L. (Eftir nokkrar hugmyndir að lausnum) Ertu viss um að hann sé í gangi?

S: (Löng þögn). HVERNIG Á MAÐUR AÐ VITA ÞAÐ? ÞAÐ HEYRIST EKKERT Í ÞESSUM BÍL.

Þetta er annað ráð stjórnmálamanna. Ytri aðstæðum var um að kenna.

Ekki misskilja mig. Stjórnmálamenn eru vænsta fólk. Og þótt það sé áskorun að búa með konu sem er utan við sig og með athyglisbrest á háu stigi, gerir það daginn í það minnsta stundum dálítið meira spennandi. Ég held svo bara í vonina um að verða aldrei maki stjórnmálamanns.