Vorið 1958 var álitamál hvort hægt væri að leysa inn efni í stúdentshúfur vegna gjaldeyrisskorts!

Sl. miðvikudag efndi forsætisráðuneytið til opinnar ráðstefnu um Framtíð íslenzkrar peningastefnu, en það er heiti á skýrslu þriggja manna nefndar, sem í áttu sæti Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, og Illugi Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra, um það efni.

Skýrslan er í raun tæplega 250 síðna bók, sem líkleg er til að verða lykilverk um þessi efni næstu árin en er kannski um leið eins konar vísir að hagsögu Íslands síðustu 100 ár frá því að við fengum fullveldi 1918. Sá vísir ætti að verða til þess að sú saga verði skrifuð því að af henni má augljóslega margt læra.

Ásgeir Jónsson kynnti efni skýrslunnar og síðan töluðu nokkrir erlendir sérfræðingar, sem nefndin hafði leitað ráðgjafar hjá. Þar vakti einna mesta athygli greinarhöfundar fyrrverandi seðlabankastjóri Írlands, Patrick Honohan að nafni, sem augljóslega hefur góðan skilning á íslenzkum aðstæðum. Það sama verður ekki sagt um sænskan prófessor, sem vafalaust hefur ætlað að vera fyndinn en í þeirri fyndni mátti heyra enduróm af gamalkunnugum sjónarmiðum Norðurlandaþjóða, sem lengi hafa talið að Íslendingar og aðrar eyþjóðir í Norður-Atlantshafi, eigi ekki að hafa fyrir því að vera sjálfstæðar.

Frosti Sigurjónsson, fyrrum alþingismaður, sá um þá hlið málsins með eftirminnilegum hætti.

Í þessari skýrslu kemur fram, að á þeim 100 árum, sem senn eru liðin frá því að Ísland fékk fullveldi en var þó enn í konungssambandi við Dani til 1944, hafi þjóðin fjórum sinnum orðið greiðsluþrota.

Í fyrsta sinn hafi það gerzt árið 1920, þegar póstávísun var send til Kaupmannahafnar, sem viðskiptabanki íslenzka ríkisins neitaði að innleysa en átti að nota til að greiða ýmis útgjöld ríkisins.

Til eru danskar heimildir, sem lýsa stöðunni á þeim tíma á þann veg, að danskir ráðamenn hafi verið orðnir þreyttir á kvabbi Íslendinga og rætt í sínum hópi að bezt væri að losa sig alveg við þá.

Næst segir skýrslan að þetta hafi gerzt 1930-1931 þegar Alþingi hafi verið kallað saman á neyðarfund á sunnudagskvöldi í febrúarbyrjun 1930 og setið fram undir morgun, vegna beiðni um ríkisábyrgð fyrir þáverandi Íslandsbanka, sem var hafnað.

Þetta atvik minnir á annan slíkan neyðarfund, sem kallaður var saman á sunnudegi síðla vetrar 2006 á heimili Davíðs Oddssonar, þá seðlabankastjóra, þegar íslenzku bankarnir fóru fram á miklar ríkisábyrgðir fyrir opnun markaða næsta dag. Niðurstaðan þá var sú að halda að sér höndum og sjá hvað gerðist og áhyggjur bankastjóranna reyndust ástæðulausar í það sinn.

Síðan segir í skýrslunni:

„Þann 13. október þetta haust (1931) kom Jón Árnason – þá formaður bankaráðs Landsbankans – aftur frá London. Sagði hann farir sínar ekki sléttar“.

Þetta minnir á aðra heimkomu frá London, snemma árs 2008, þegar Davíð Oddsson, þá seðlabankastjóri, óskaði eftir fundi með forráðamönnum þáverandi ríkisstjórnar og sagði farir sínar ekki sléttar eftir viðtöl við banka í London. Á þau aðvörunarorð var ekki hlustað þá.

Skýrsluhöfundar segja að Ísland hafi orðið greiðsluþrota í þriðja sinn árið 1946

og lýsa því með þessum hætti:

„Við lok seinni heimsstyrjaldar var Ísland að nafninu til ein ríkasta þjóð Evrópu en gat þó ekki flutt inn ávexti nema aðeins fyrir jólin!“

Hér má skjóta inn í að rúmum áratug síðar eða vorið 1958, var óvissa um, hvort stúdentar, sem þá voru að útskrifast frá Menntaskólanum í Reykjavík gætu sett upp stúdentshúfur vegna þess að það var álitamál, hvort framleiðandi húfanna, P. Eyfeld, fengi gjaldeyri til að leysa inn efnið í húfurnar.

Fjórða greiðsluþrotið skv. skýrslunni var svo að sjálfsögðu haustið 2008.

Þetta er fróðleg og gagnleg upprifjun, sem um leið sýnir að sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig.

Í því samhengi er ástæða til að vekja athygli á, að í máli manna á fyrrnefndri ráðstefnu forsætisráðuneytis kom aftur og aftur fram, að Norðurlöndum hefði tekizt að ná víðtæku samkomulagi, eins konar samfélagssáttmála, sem næði líka til vinnumarkaðarins.

Það hefur ekki tekizt hér en þó hefur það verið reynt.

Svonefnt Salek-samkomulag, sem undirritað var undir lok októbermánaðar 2015 af fulltrúum meirihluta launþega í landinu, atvinnulífsins og þáverandi ríkisstjórnar, var heiðarleg tilraun til þess. Í aðdraganda þeirrar undirskriftar hafði verið deilt um, hvort viðmiðunarár ætti að vera 2006 eða 2013 og að lokum tókst samkomulag um 2013.

Þetta var skref í átt til þess að koma hér á eins konar samfélagssáttmála, sem næði líka til vinnumarkaðarins eins og tekizt hefur á öðrum Norðurlöndum og rækilega var rakið á fyrrnefndri ráðstefnu forsætisráðuneytis.

Nú er þessi tilraun í rúst.

Hvers vegna?

Vegna þess, að þegar Kjararáð úrskurðaði um launahækkanir til æðstu embættismanna sumarið 2016 og til þingmanna og ráðherra haustið 2016 var Salek-samkomulagið haft að engu. Og Alþingi virðist ekki hafa dottið í hug að afnema þessar hækkanir sjálfu sér til handa eins og það hafði gert tvívegis áður, 1992 og 2005.

Það má orða þetta á annan veg, að þeir sem stóðu fyrir ráðstefnunni um Framtíð íslenzkrar peningastefnu sl. miðvikudag, hafi kosið að hafa þær ábendingar, sem þar komu fram að engu.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is