Í vikunni opinberuðust aftur fyrir okkur kerfisvillur í íslensku stjórn- og velferðarkerfi. Við fengum enn einu sinni að heyra sögur hugrakkra kvenna sem stigu fram með sögur sínar af alvarlegu heimilisofbeldi sem þær máttu þola.

Í vikunni opinberuðust aftur fyrir okkur kerfisvillur í íslensku stjórn- og velferðarkerfi. Við fengum enn einu sinni að heyra sögur hugrakkra kvenna sem stigu fram með sögur sínar af alvarlegu heimilisofbeldi sem þær máttu þola. Af reynslu minni sem lögmaður get ég staðfest að þær sögur sem við heyrum nú af erfiðleikum við að losna úr slíkum ofbeldissamböndum eru ekkert einsdæmi. Það er öllum ljóst hvers kyns þjóðfélagsmein heimilisofbeldi er og því verður kerfið okkar, lög og reglur, framkvæmd stjórnvalda og réttarkerfið að virka til bjargar þeim sem út úr slíkum hörmungum sleppa.

Að brjótast út úr ofbeldissambandi er afskaplega flókið og þá þarf að tryggja að reglur og kerfið þvælist ekki fyrir og tefji úrlausn. Það þarf mikið hugrekki til að standa upp, segja frá og bjarga sér og börnum úr slíkum aðstæðum því framtíðin er í fullkominni óvissu.

Ganga þarf frá lögformlegum atriðum eins og skilnaði, forsjá barna og eignaskiptum. Þetta þarf að afgreiða hjá sýslumönnum og þar er víða pottur brotinn. Í fyrsta lagi er málsmeðferðartími allt of langur vegna manneklu. Í öðru lagi lúta ofbeldismál engri sérstakri flýtimeðferð heldur fara einfaldlega neðst í bunkann. Ofbeldið heldur áfram, eins og við fengum að heyra af í vikunni, þegar ofbeldismaðurinn frestaði stöðugt afgreiðslu máls hjá sýslumanni. Þetta hef ég margsinnis séð í störfum mínum, hvernig hægt er að fresta stöðugt afgreiðslu með því að afboða fundi, skila seint eða illa inn gögnum, fá sífellt lengri fresti og loks óska eftir sífellt fleiri tímum í sáttameðferð með þeim sem beittur var ofbeldi. Ef ekki næst samkomulag um skilnað, forsjá og eignaskipti þá er málinu vísað frá og leita þarf úrlausnar dómstóla. Þar er málsmeðferðartíminn ekkert styttri. Þetta má einnig sjá í umgengnismálum, þar sem fólk kemst allt of oft upp með að tefja, fresta fundum og þannig viðhalda ómögulegu ástandi. Á bak við slíkt mál sem dregst mánuðum og árum saman er fjölskylda sem þarf að halda áfram með líf sitt, oft á algjörlega nýjum stað án skýrrar framtíðar. Þegar framkvæmd eignaskipta og ákvörðunar um forsjá í kjölfar ofbeldissambands eru svo mikið undir ofbeldismanninum komin er ljóst að kerfið verður að koma til aðstoðar af meiri festu. Það verður að koma í veg fyrir að ofbeldið haldi áfram og bregðast hratt við og minnka þannig þjáningar fjölskyldna. Við þurfum að taka þetta kerfi til endurskoðunar sem fyrst. Það er ýmislegt hvort tveggja í barnalögum sem og hjúskaparlögum sem þarfnast endurskoðunar og það er okkar að fara í það á þinginu. Ég lofa mínu liðsinni við verkið en skora einnig á stjórnvöld að efla þau embætti sem með málefnin fara.

helgavala@althingi.is

Höfundur er þingman Samfylkingarinnar.