[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vilnius Kristján Jónsson kris@mbl.is Vel skal vanda það sem lengi á að standa stendur einhvers staðar. Þetta máltæki kom upp í hugann í Vilníus í gær.

Í Vilnius

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Vel skal vanda það sem lengi á að standa stendur einhvers staðar. Þetta máltæki kom upp í hugann í Vilníus í gær. Þegar sextíu mínúturnar voru liðnar í fyrri umspilsleik Íslands og Litháen í undankeppni HM karla í handknattleik virtust Litháar hafa sigrað 28:27. Svo fór þó ekki og liðin skilja jöfn 27:27 eftir að Íslendingar gátu sýnt fram á að mark sem ekki átti að standa hjá Litháum í síðari hálfleik var talið með af starfsmönnum leiksins. Lesa má um málsatvik á forsíðu íþróttablaðsins en einnig á mbl.is.

Litháar náðu mjög góðum úrslitum á heimavelli í síðustu undankeppni fyrir EM 2018 eins og kom fram hér í blaðinu. Litháen lagði sterkt lið Noregs að velli og tapaði með minnsta mun fyrir sigursælu liði Frakklands. Ísland fór milliveginn og gerði jafntefli en það sýndi sig að Litháar eru virkilega sterkir á heimavelli. Íslendingar eiga þó alla möguleika á því að komast í lokakeppni HM enda er heimaleikurinn eftir og vonandi fá landsliðsmennirnir góðan stuðning í Laugardalshöll á miðvikudagskvöldið.

Björgvin Páll Gústavsson var besti maður íslenska liðsins í Vilníus í gær. Varði alls 17 skot og þar af tvö vítaköst. Björgvin byrjaði leikinn vel á upphafsmínútunum og hélt dampi. Björgvin varði oft úr dauðafærum frá Litháum en það hefur löngum verið sérkenni Björgvins. Á hinum enda vallarins var þó svipað uppi á teningnum hvað það varðar að Íslendingar fóru illa með marktækifærin. Giedrius Morkunas, fyrrverandi markvörður Hauka, stóð í marki Litháa megnið af leiknum og varði ágætlega. Ekki var hann eini Íslandsvinurinn í hópi Litháa því aðstoðarþjálfari liðsins er Miglius Astrauskas, fyrrverandi þjálfari HK. Er nokkuð skondin tilviljun að hann og aðstoðarþjálfari Íslands, Gunnar Magnússon, stýrðu liði HK saman um tíma.

Hraðann þyrfti að auka

Ekki er skynsamlegt að fella mikla dóma yfir íslenska landsliðinu á þessum tímapunkti. Um var að ræða fyrsta mótsleikinn hjá Guðmundi Guðmundssyni eftir að hann tók við liðinu í þriðja sinn. Eitt og annað er hægt að setja út á í þessum tiltekna leik en takist íslenska liðinu að landa sigri í síðari leiknum mun gefast rúmlega hálft ár til að slípa liðið betur saman.

Flestir landsliðsmannanna voru sammála um að sóknin hefði verið fullhæg hjá íslenska liðinu. Ef boltinn fær að ganga hraðar á milli manna þá ætti ógnunin að aukast. Ómar Ingi Magnússon átti mjög góðan leik í skyttustöðunni hægra megin. Vinstra megin var Aron Pálmarsson drjúgur í síðari hálfleik. Í seinni tíð skýtur Aron minna utan af velli en áður að mér finnst. Hans leikur hefur ef til vill þróast þannig hjá félagsliðum en mín vegna mætti hann skjóta meira af færi. Einfaldlega vegna þess að skottilraunir hans eru nánast ávallt hættulegar.

Vörn íslenska liðsins var góð í fyrri hálfleik í gær og vert að geta þess. Í landsleikjum í nútímahandbolta er ávallt gott að fá á sig tíu mörk.