Vendinum kastað til að ákvarða næstu brúði.
Vendinum kastað til að ákvarða næstu brúði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Boracay er sólrík eyja sem tilheyrir Filippseyjum. Þar er gott að slaka á á hvítum ströndum og njóta lífsins, en áhugasamir þurfa þó að bíða þar til eyjan verður aftur opnuð ferðamönnum. Arnar Tómas Valgeirsson arnart@mbl.is

Andstæðurnar voru sterkar þegar við stigum upp úr brúnu febrúarslabbinu á Íslandi og niður á hvítan sandinn á eyjunni Boracay sem tilheyrir Filippseyjum. Vinafólk mitt hafði boðið til brúðkaups og við gátum ekki látið hálfan hnöttinn standa í vegi fyrir okkur þegar við sóttum verðandi brúðina heim. Eftir langt ferðalag og nokkrar misskemmtilegar millilendingar var loksins komið í höfn, en eina leiðin til að ferðast til agnarsmárrar eyjunnar er með ferju.

Boracay er einn helsti áfangastaður ferðamanna til Filippseyja, en þangað hafa undanfarið komið hátt í tvær milljónir ferðamanna árlega. Eyjan er ílöng og einungis um tíu ferkílómetrar að flatarmáli, en hún er einna þekktust fyrir skjannahvíta standlengjuna og kröftugt næturlíf.

Ódýrt fjör

Eitt það fyrsta sem maður rekur augun í er að það eru nánast engir bílar á eyjunni, en flestir gestir nýta sér bifhjól með rúmgóðum hliðarvagni til að komast á milli staða, á meðan margir heimamenn láta hjólið nægja. Verðlagið á Boracay er lágt líkt og á öðrum eyjum í klasanum og er til að mynda hægt að nýta sér styrk íslensku krónunnar til að kaupa flösku af rommi á lægra verði en litla kókómjólkurfernu heima fyrir. Ferðamennska er langstærsta atvinnugrein eyjunnar og enn er verið að reisa stór hótel.

Íbúar eyjunnar eru vinalegir og tala flestir reiprennandi ensku. Þeir útskýrðu fyrir okkur eftir stutt spjall að við ættum eftir að skemmta okkur vel en að eyjan væri líklega ekki besti staðurinn til að upplifa hefðbundna menningu Filippseyja. Það er líklega rétt enda er mikill ferðamannabragur yfir öllu, en stundum er ágætt að njóta þess, eins og félagi minn komst að orði, „að hafa það næs á skýlunni“. Okkur þótti til að mynda ekki leiðinlegt að stökkva af klettum í sjóinn eða heilsa upp á gullfiskana í hjálmaköfun.

Úrvalið af afþreyingu að degi til er nánast endalaust, hvort sem fólk sækist eftir afslöppun eða adrenalíni. Á kvöldin sátum við svo á ströndinni og nutum kvöldmatar í kringum elddansara, villiketti og tónlistarmenn sem voru misjafnlega sjálfumglaðir. Filippseyskur matur getur verið æðislega góður, en það getur verið gott að vanda valið á veitingastöðum. Ef farið er út fyrir strandlengjuna má líka finna framandi menningarkima á borð við alvöru hanaat sem við ákváðum að sleppa af ýmsum ástæðum.

Ferðinni lauk á hápunkti þar sem við kófsveittir Íslendingar fórum í fínu fötin og mættum í fallega (en óloftræsta) kirkju til að horfa á vini okkar ganga í það heilaga. Eftir fallega athöfn að kaþólskum sið var brúðhjónunum fylgt út á strönd þar sem var boðið upp á kvöldmat og ógleymanleg veisluhöld langt fram á nótt. Það var erfitt að kveðja sólina og fara heim í slabbið, en nú veit maður hvar hún felur sig á veturna.