Myndin Hér má sjá myndina sem um ræðir en í bakgrunni eru myndir af sjálfboðaliðum sem starfað hafa fyrir KR í gegnum tíðina, auk bikara.
Myndin Hér má sjá myndina sem um ræðir en í bakgrunni eru myndir af sjálfboðaliðum sem starfað hafa fyrir KR í gegnum tíðina, auk bikara. — Magnús Andersen
„Maður áttar sig ekki á almennilega á því hvað Knattspyrnufélag Reykjavíkur hefur með feðraveldið að gera,“ segir Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, um mynd þar sem þrjár konur stilla sér upp berbrjósta fyrir framan bikaraskáp KR.

„Maður áttar sig ekki á almennilega á því hvað Knattspyrnufélag Reykjavíkur hefur með feðraveldið að gera,“ segir Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, um mynd þar sem þrjár konur stilla sér upp berbrjósta fyrir framan bikaraskáp KR. Myndin er hluti af listsýningunni Demoncrazy á Listahátíð Reykjavíkur, en í tengslum við sýninguna hefur fjöldi kvenna stillt sér upp berbrjósta fyrir framan ýmis þekkt kennileiti.

Auk bikaraherbergis KR voru teknar myndir fyrir utan Alþingishúsið og Menntaskólann í Reykjavík auk Stjórnarráðsins.

Jónas segir erfitt að átta sig á gjörningnum enda telji hann KR vera félag jafnréttis en ekki táknmynd feðraveldisins. „Þetta er félag þar sem bæði konur og karlar eru velkomin. Hér hefur fjöldi kvenna og karla unnið sem sjálfboðaliðar og ég bara átta mig ekki á því hvaða tengingu þetta hefur við feðraveldið. Þess utan verður Listahátíð Reykjavíkur að svara fyrir það hvað þessar myndir hafa með list að gera,“ segir Jónas og bætir við að alvarleiki málsins felist helst í því að myndirnar hafi verið teknar án leyfis frá yfirstjórn KR. „Það var ungur strákur í afgreiðslunni sem hleypti þeim inn í herbergið þar sem þær taka þessar myndir. Þær fara þarna inn án þess að vera búnar að biðja um leyfi frá yfirstjórn KR þannig að þetta er frekar óheppilegt,“ segir Jónas en á myndinni sem um ræðir voru í bakgrunni myndir af fjölda sjálfboðaliða sem starfað hafa fyrir KR í gegnum tíðina.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fór það fyrir brjóstið á hópi KR-inga sem lýstu í kjölfarið yfir óánægju með myndirnar við stjórn KR.

Fagnar umræðu um myndirnar

Borghildur Indriðadóttir er listakonan sem stendur á bak við gjörninginn. Hún segir að áður en myndirnar úr KR- húsinu voru teknar hafi verið búið að fá leyfi frá húsvörðum félagsins. Þá sé hún ánægð með að umræða skapist um myndirnar.

„Mér finnst þetta áhugaverð túlkun hjá KR og þeir verða bara að eiga það við sig. Við erum bara að taka myndir af veggjum þekktra bygginga og mér finnst skrýtið ef það má ekki birta þær,“ segir Borghildur.

aronthordur@mbl.is