Hjónin Kristín og Engilbert á níræðisafmæli Engilberts í fyrra.
Hjónin Kristín og Engilbert á níræðisafmæli Engilberts í fyrra.
Kristín Ragnhildur Daníelsdóttir á 90 ára afmæli á morgun. Hún fæddist að Uppsölum í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp og lærði hárgreiðslu í Iðnskólanum á Ísafirði.

Kristín Ragnhildur Daníelsdóttir á 90 ára afmæli á morgun. Hún fæddist að Uppsölum í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp og lærði hárgreiðslu í Iðnskólanum á Ísafirði.

Kristín giftist Engilbert Sumarliða Ingvarssyni bónda og bókbindara árið 1948, en hann fæddist í Unaðsdal á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp. Þau bjuggu fyrstu hjúskaparár sín á Ísafirði en árið 1953 fluttu þau að Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd. „Það var því maðurinn minn sem gerði mig að bóndakonu. Við byggðum upp hús á Tyrðilmýri þar sem við bjuggum í 34 ár. Nú á seinustu árum endurbyggðum við hús sem foreldrar hans áttu á Snæfjallaströnd og heitir Lyngholt og við eigum það ennþá og fjölskyldan notar bæinn núna sem sumarhús.“

Kristín og Engilbert fluttu til Hólmavíkur árið 1987 og þar bjuggu þau til 2014 er þau fluttu til Ísafjarðar og þar búa þau nú, á Hlíf II.

„Við hjónin fylgjumst með og tökum þátt í því sem er um að vera og við ráðum við. Förum í ferðalög með eldri borgurum hingað og þangað um landið og á skemmtanir. Ég var fyrr á þessu ári á ABBA-tónleikum í Hörpunni og þeir voru rosalega skemmtilegir.“

Kristín og Engilbert eignuðust sjö börn: Gretti, d. 2015, Daníel, Ingvar, Jón Hallfreð, Ólaf Jóhann, Atla Viðar og Salbjörgu. Barnabörnin eru 16 og barnabarnabörnin 7.

„Ég ætla ekki að gera neitt í tilefni dagsins, læt aðra sjá um það,“ segir Kristín, en þau hjónin ætla nú samt að skreppa til Hólmavíkur þar sem dóttir þeirra býr og þar mun fjölskyldan koma saman og gera sér glaðan dag.