— AFP
Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson hefur tekið þátt í tíu landsleikjum Íslands síðasta eitt og hálfa árið og gerir nú tilkall til sætis í byrjunarliðinu fyrir fyrsta leikinn á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson hefur tekið þátt í tíu landsleikjum Íslands síðasta eitt og hálfa árið og gerir nú tilkall til sætis í byrjunarliðinu fyrir fyrsta leikinn á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

Björn sló í gegn með Skagamönnum sextán ára gamall árið 2007 og tveimur árum síðar var hann farinn í atvinnumennsku í Noregi. Þar hefur hann leikið með Lilleström og Molde, hann var þrjú ár í röðum enska félagsins Wolves og um skeið með Bröndby í Danmörku en kom aftur til Molde og var einn besti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar 2017. Í kjölfarið samdi hann við rússneska félagið Rostov og verður því á heimavelli í þriðja leik Íslands á HM, gegn Króatíu.

Björn er 27 ára gamall sóknarmaður, fæddur 26. febrúar 1991. Hann gaf ekki kost á sér í landsliðið um nokkurt skeið, eftir að hafa leikið fyrsta leikinn 2011, en hefur verið fastamaður í hópnum frá haustinu 2016 og hefur nú spilað 13 landsleiki og skorað eitt mark.