Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði við blaðamenn í gær að Rússland ætti að koma aftur inn í hóp G7-ríkjanna.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði við blaðamenn í gær að Rússland ætti að koma aftur inn í hóp G7-ríkjanna. Rússland var áður hluti af þessum hópi stærstu lýðræðis- og iðnríkja heims en var sparkað úr hópnum eftir innlimun Krímskagans í Rússland árið 2014.

„Þau hentu Rússlandi út. Þau ættu að leyfa Rússum að koma aftur inn því við ættum að hafa Rússland við samningaborðið,“ sagði Trump áður en hann flaug af stað til Quebec í Kanada þar sem fundurinn fer fram. Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, Þýskalandskanslari, Angela Merkel, Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, og forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, ræddu saman um mögulega endurkomu Rússa í hóp G7- ríkjanna samkvæmt frétt AFP og var sameiginleg niðurstaða þeirra að hleypa Rússum ekki að að nýju. Aðstoðarmaður forseta Frakklands sagði við AFP að þau væru hins vegar opin fyrir því að opna á frekari samtöl við Rússa í framtíðinni. May tók í sama streng í viðtali við SkyNews og sagði að þau ættu að vera í sambandi við Rússland en vera varkár. Conte hafði áður gefið til kynna í tísti að hann væri hlynntur því að Rússar fengju að sækja fundina að nýju.

Trump einangraður í Kanada

Sumir fjölmiðlar erlendis hafa nefnt fund G7-ríkjanna í Kanada G6+1 fundinn vegna óvinsælda Trumps. Spenna ríkir á milli ríkjanna sex, þ.e. Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japans, Bretlands og Bandaríkjanna vegna m.a. úrsagnar þess síðastnefnda úr kjarnorkusamkomulagi við Íran og innflutningstolla Bandaríkjanna á Kanada og Evrópu.

„Forseta Bandaríkjanna er kannski alveg sama þótt hann sé einangraður, en okkur er líka alveg sama þótt við skrifum undir sex ríkja samninga ef þess er þörf,“ tísti Macron Frakklandsforseti. Þá sagði Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, að öryggissjónarmið Bandaríkjanna fyrir réttlætingu innflutningstollanna væru „hlægileg“.

Í samtölum sínum við blaðamenn áður en hann hélt af stað til Kanada sagði Trump að Bandaríkin væru með viðskiptahalla við næstum öll lönd og þörf væri á því að rétta hallann af og það ætlaði hann að gera. „Það mun ekki einu sinni vera erfitt og að lokum mun okkur öllum koma vel saman,“ sagði Trump, sem mun yfirgefa Kanada fyrr en aðrir þjóðhöfðingar að sögn fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins.