Á kafi Tæknimaður Breiðholt festival leggur höfuðið í bleyti í Ölduselslaug. Til hliðar við hann má sjá flothettur, hangandi á handriði, sem gestir geta notað sér til yndisauka og slökunar á meðan þeir njóta fagurra tóna í vatni.
Á kafi Tæknimaður Breiðholt festival leggur höfuðið í bleyti í Ölduselslaug. Til hliðar við hann má sjá flothettur, hangandi á handriði, sem gestir geta notað sér til yndisauka og slökunar á meðan þeir njóta fagurra tóna í vatni.
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Breiðholt festival, hátíðin sem haldin hefur verið í Breiðholti nokkur sumur í röð, tekur þátt í Listahátíð í Reykjavík í ár með viðburði sem fram fer í dag kl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Breiðholt festival, hátíðin sem haldin hefur verið í Breiðholti nokkur sumur í röð, tekur þátt í Listahátíð í Reykjavík í ár með viðburði sem fram fer í dag kl. 14 í Ölduselslaug sem jafnan er notuð til sundkennslu. Býðst hátíðargestum þá að hlusta á kvikmynda- og sjónvarpsþáttatónlist ofan í lauginni og verður hún ekki leikin af sundlaugarbakkanum heldur úr vatnsheldum hátölurum ofan í lauginni.

Gestum verður boðið að setja á sig flothettur til að njóta tónlistarinnar og geta þannig flotið um laugina með eyrun undir vatnsyfirborðinu og notið tónanna í allt að fjórar klukkustundir.

Flest tónverkanna sem leikin verða hafa hlotið ýmsar tilnefningar og verðlaun. Pétur Ben hlaut Edduverðlaunin fyrr á þessu ári fyrir tónlist sína við sjónvarpsþættina Fanga , Daníel Bjarnason hlaut Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunin fyrir tónlist sína við kvikmyndina Undir trénu og einnig verða leikin tónverk Hildar Guðnadóttur og Jóhanns Jóhannssonar sem þau sömdu fyrir kvikmyndina Mary Magdalene , tónlist Ben Frost við Dark og tónlist Örvars Smárasonar og Gunnars Tynes úr múm við kvikmyndina Svaninn .

Tenging við umhverfið

Listrænir stjórnendur Breiðholt festival eru Sigríður Sunna Reynisdóttir og Valgeir Sigurðsson og segir Valgeir að Breiðholt festival hátíðin sé nú haldin í fjórða sinn.

En hvers vegna varð tónlist samin við kvikmyndir og sjónvarpsþætti fyrir valinu?

,,Það er bara svo margt spennandi búið að vera að gerast í kvikmyndatónlist og við höfum alltaf haft aðeins að leiðarljósi að tónlistin á hátíðinni tengist eitthvað okkar umhverfi og sé eftir aðila sem hafi einhverja tengingu við Breiðholtið. Mikið af þessari tónlist hefur einhverja tengingu við Gróðurhúsið, hljóðverið, er eftir fólk sem hefur unnið þar og okkur fannst þetta skemmtilegur vinkill.

Við höfum verið með svona samflot, svona neðansjávarmúsík, í lauginni áður og okkur langaði að gefa því núna meiri fókus og leggja meiri áherslu á sérstaka þætti í tónlistinni,“ svarar Valgeir.

Kræsingar á bakkanum

– Heyrist tónlistin vel ofan í vatninu? Hún hlýtur að breytast töluvert?

,,Já, hún breytist en vatn ber hljóð mjög vel og þú þarft að vera með eyrun ofan í því. Þetta er aðeins öðruvísi upplifun, auðvitað, og það sem breytist er að þú ferð ofan í það – er kannski erfitt að vera með eyrun ofan í í fjóra klukkutíma, segir Valgeir, ,,þú dýfir þér aðeins ofan í og upp úr aftur.“

Aðgangur að viðburðinum er ókeypis og þar sem laugin er kennslulaug þarf ekki að borga sig ofan í hana. Að auki verður matarmarkaður á sundlaugarbakkanum með kræsingum frá ýmsum heimshornum, að sögn Valgeirs. ,,Við erum að leggja áherslu á þetta fjölmenningarsamfélag sem Breiðholtið er og erum því að fá fólk frá ýmsum heimshornum, Víetnam og víðar að, til að vera með sinn mat á boðstólnum.