Jón Guðmundsson fæddist 10. febrúar 1949 á Kirkjubæ í Hróarstungu. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 25. maí 2018.

Foreldrar Jóns voru Guðmundur Sigurðsson frá Brekku í Hróarstungu, f. 16. mars 1916, og Pálína Jónsdóttir, f. á býlinu Fæti í Folafæti, Ísafjarðardjúpi, 27. júní 1925. Þau eru bæði látin.

Guðmundur og Pálína hófu búskap á Brekku í Hróarstungu árið 1946 en fluttu í Kirkjubæ í sömu sveit 1947. Þegar Jón var þriggja ára flutti fjölskyldan í Húsey í Hróarstungu en ári seinna, 1953, fluttu þau að Vífilsnesi í Hróarstungu og ólst Jón þar upp til 15 ára aldurs. 1964 flutti fjölskyldan til Seyðisfjarðar, þar sem Jón bjó síðan mestan hluta ævi sinnar.

Jón átti fimm bræður. Elstur er Sigurður Hróar, f. 4. maí 1947. Kona hans var Elísabet Magnúsdóttir frá Ballará, hún er nú látin. Þau eignuðust þrjú börn. Þórbergur Austri, f. 18. júní 1954. Kona hans er Pamela Innis Guðmundsson. Þau eiga þrjú börn og eru búsett á Nýja-Sjálandi. Hermann Vestri, f. 30. júní 1955. Kona hans er Guðrún Þórhildur Elfarsdóttir. Þau eiga tvær dætur. Fimmti í röðinni er Einar Hólm, f. 28. mars 1961. Yngstur er Sigurjón Þórir, f. 4. mars 1965. Hann er giftur Höllu Dröfn Þorsteinsdóttur. Þau eiga fjögur börn.

Útför Jóns fer fram frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 9. júní 2018, klukkan 11, en jarðsett verður á Kirkjubæ í Hróarstungu.

Ég minnist með virðingu og hlýju vinar míns Jóns Guðmundssonar. Kynni okkar hófust fyrir hartnær þremur áratugum. Fyrst í tengslum við störf í þágu Félag starfsfólks í veitingahúsum en síðar í tengslum við Þjónustusamband Íslands og Lífeyrissjóð Austurlands hvar Jón var um tíma stjórnarformaður. Allar þessar félagslegu samfélagsstofnanir eru nú horfnar eftir að hafa sameinast öðrum og stærri líkt og vinur minn Jón hefur nú sjálfur gert. Það er ekki auðvelt að lýsa Jóni svo margbrotinn sem hann var. Engum leyndist að hann var afburðagreindur og flestum fljótari að átta sig á því sem skipti máli og því sem engu skipti. Þessi eiginleiki hans skilaði sér vel í öllum störfum hans. Hann skoraði allar skoðanir á hólm en ætíð af virðingu og oftar en ekki með kímni. Ég man aldrei til þess að hann legði illt til nokkurs manns en leitaði frekar skilnings á málstað þess sem ekki var honum sammála.

Jón hafði ætíð á hraðbergi hin ýmsu ljóð, sum vel þekkt en önnur sem ég hafði aldrei heyrt og sem hann staðfastlega neitaði að segja hver höfundur væri að. Mig grunar að sumt af því hafi verið hans eigið. Jón var með öðrum orðum upplýstur og vel menntaður maður í besta skilningi þess hugtaks, þeim skilningi sem Jón Baldvinsson, fyrrum forseti ASÍ, lagði í það. Það verður aldrei sagt að hann hafi verið höfðingjadeigur og taldi sig jafningja hvers þess manns sem hann átti viðræðu við.

Eitt sinn sátum við saman á fundi með einum af stærstu fjárfestingasjóðum Bretlands. Jón hafði þegið boð þeirra þar sem gera skyldi grein fyrir störfum sjóðsins í þágu Lífeyrissjóðs Austurlands. Fundurinn var haldinn á efstu hæð í einum þessara háu spegilturna í fjármálahverfi London. Allur var viðurgjörningur var hinn besti og glæsilegur hópur manna í teinóttum jakkafötum útskýrði fyrir okkur árangur sinn og fjárfestingastefnu. Jón hlustaði af athygli og spurði margs. Í lok fundar tók hann úr pússi sínu nokkra spilastokka og afhenti hverjum og einum gestgjafanna. Hann þakkaði þeim allar þeirra góðu útskýringar og ráð en sagði síðan að starf þeirra væri ekki ólíkt starfi fjárhættuspilara og ráðlagði þeim að spila póker með nýju spilunum sínum svona til þess að halda sér á tánum. Sjaldan hef ég séð hóp manna verða eins hissa og fara um leið svolítið hjá sér. Öllu var þó vel tekið því eins og Jóni var lagið gerði hann þetta af hinni mestu kurteisi. Tæplega tveimur áratugum síðar hrundi fjármálakerfið og mér varð ljóst hversu rétt hann hefði haft fyrir sér. En nú er komið að leiðarlokum.

Ferðum Jóns til Reykjavíkur fækkaði síðustu árin og fundum okkar samhliða. Í vikunni fyrir páska drukkum við saman kaffi á Seyðisfirði. Það leyndi sér ekki að nokkuð var af vini mínum dregið eftir langvarandi vanheilsu. Við kvöddumst vel og á leiðinni upp úr Seyðisfirði fannst mér eins og þetta hefði verið okkar síðasti fundur. Það reyndist rétt. Eftir sitja minningar um góðan dreng, einlægan jafnaðarmann og leiftrandi persónuleika. Ég votta öllum ættingjum hans mína innilegustu samúð.

Magnús M. Norðdahl.