Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Hryggur þrátt ver hana skaða. Hún vínanda færir þér. Gera þeir, sem heyi hlaða. Hálfgerð rola þetta er.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Hryggur þrátt ver hana skaða.

Hún vínanda færir þér.

Gera þeir, sem heyi hlaða.

Hálfgerð rola þetta er.

Sigmar Ingason leysir gátuna þannig:

Mænan liggur inní miðjum hrygg

mörg er flaskan nefnd svo — að ég hygg,

vel mænd sáta sérhvert prýðir engið,

síst skal verk það hengilmænu fengið.

Þessi er lausn Helga R. Einarssonar:

Hryggur, vínið, hey og skauð

hugarfrónni ræna.

Er lausnarorðið saman sauð

mér sýndist birtast mæna.

Guðrún Bjarnadóttir svarar:

Heila mænu hryggur tryggir,

hnarreist skal ég mæna á þjón.

Mænir hátt er hey upp byggir

hengilmænan lati Jón.

Harpa á Hjarðarfelli svarar með þessum orðum: „Þá er sauðburðarönnum að mestu lokið og hægt að gefa sér tíma fyrir gátur. Lausnin að þessu sinni er svona.

Mæna er í mínum hrygg

Mæna flaska er.

Mæna heyið mjög vel hygg.

Mæna hengils hér.“

Hér er lausn Helga Seljan:

Mænuna vísast má ei skaða,

á mænu þyrstir hafa trú.

Upp í mæna heyi hlaða,

hengilmænur finnast nú.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Hryggur mænu manns ver skaða.

Mæna vínið færir þér.

Mæna þeir, sem heyi hlaða.

Hengilmæna rolan er.

Þá er limra:

Ein hænuréttinda hæna

tók hana grobbinn til bæna

og ærðan af ótta

rak óðar á flótta,

því haninn var hengilmæna.

Að lokum er ný gáta eftir Guðmund:

Vorið góða vermir lönd,

vindar hægt sér láta.

Fagur dagur fer í hönd,

fæðist lítil gáta:

Brattur tindur birtist hér.

Bátskríli, sem hrörlegt er.

Lag það heyrist leikið á.

Löngum má þar vísur sjá.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is