Óflugur Daði Ólafsson stakk varnarmenn Keflavíkur af ótt og títt í gærkvöldi.
Óflugur Daði Ólafsson stakk varnarmenn Keflavíkur af ótt og títt í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Egilshöll Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Himinn og haf var á milli spilamennsku Fylkis og Keflavíkur í nýliðaslag í 8. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í gærkvöldi.

Í Egilshöll

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Himinn og haf var á milli spilamennsku Fylkis og Keflavíkur í nýliðaslag í 8. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í gærkvöldi. Að lokum vann Fylkir 2:0-sigur en miðað við færi Fylkismanna hefði leikurinn getað farið 7:0.

Hvað eftir annað misstu Keflvíkingar boltann kjánalega frá sér á hættulegum stöðum og sprækir Fylkismenn voru mættir í andlitið á þeim í góðum sóknum í kjölfarið. Það reyndist Fylki afar auðvelt að spila sig í glimrandi góð færi og voru miðja og vörn Keflavíkur lítil fyrirstaða. Ef ekki hefði verið fyrir slæman dag á afgreiðsluskrifstofunni hjá Fylkismönnum hefðu mörkin orðið miklu fleiri. Fylkismenn fengu 4-5 sannkölluð dauðafæri til að bæta við mörkum á meðan Aron Snær Friðriksson hafði lítið að gera í markinu hinum megin. Fylkir lék vel en að sama skapi var leikur Keflvíkinga í algjörum molum og það lélegasta sem undirritaður hefur séð í efstu deild í ár. Keflavík er aðeins með þrjú stig og án sigurs eftir átta leiki og er full ástæða til að óttast þar á bæ, ef litið er á leik gærkvöldsins.

Jeppe Hansen er að glíma við meiðsli og var landi hans Lasse Rise því einn frammi. Rise fékk ekki úr neinu að moða og virtist hann vera orðinn pirraður og farinn að hengja haus snemma leiks.

Fylkismenn töpuðu verðskuldað fyrir toppliði Grindavíkur í síðasta leik og ákvað Helgi Sigurðsson að breyta um leikkerfi í gær og með þessum góða árangri. Daði Ólafsson og Ásgeir Örn Arnþórsson voru stórhættulegir hvor í sinni vængbakvarðarstöðunni, Fylkir var með yfirburði á miðjunni og Hákon Ingi Jónsson og Jonathan Glenn létu varnarmenn Keflvíkinga hafa mikið fyrir hlutunum í framlínunni. Fylkismenn voru vissulega góðir, en víst er að Keflvíkingar munu falla, nái þeir ekki að bæta sig.