Mark Ingibergur Kort Sigurðsson skorar eftir að hafa stöðvað spyrnu Arnars Darra Péturssonar, markmanns Þróttar.
Mark Ingibergur Kort Sigurðsson skorar eftir að hafa stöðvað spyrnu Arnars Darra Péturssonar, markmanns Þróttar. — Morgunblaðið/Valli
Víkingur Ólafsvík hefur þurft að leika fyrstu sex leiki sína í Inkasso-deild karla í knattspyrnu á útivelli það sem af er leiktíð. Uppskeran er ágæt, 10 stig, eftir að liðið sótti þrjú stig í Laugardalinn í gær með mikilvægum 3:1-sigri á Þrótti.

Víkingur Ólafsvík hefur þurft að leika fyrstu sex leiki sína í Inkasso-deild karla í knattspyrnu á útivelli það sem af er leiktíð. Uppskeran er ágæt, 10 stig, eftir að liðið sótti þrjú stig í Laugardalinn í gær með mikilvægum 3:1-sigri á Þrótti. Ólafsvíkingar taka svo á móti Leikni R. í fyrsta heimaleik sínum á tímabilinu, næsta miðvikudag, á nýlögðum gervigrasvelli sínum.

Þróttarar fengu reyndar óskabyrjun í Laugardal í gær því Hreinn Ingi Örnólfsson kom þeim yfir eftir fimm mínútna leik. Ingibergur Kort Sigurðsson náði að jafna metin rétt fyrir leikhlé og í seinni hálfleiknum tryggðu Ignacio Heras og Pape Mamadou Faye gestunum sigur. Pape varð hins vegar að fara af velli vegna meiðsla undir lok leiks.

Þrenna Turudija dugði skammt

Skagamenn eru á toppi deildarinnar, sex stigum á undan Víkingi, Haukum og Þór en þremur stigum á undan HK sem sækir Þór heim á Akureyri í dag. Skagamenn áttu ekki í vandræðum með ÍR-inga á Akranesi í gærkvöld, voru mun sterkari aðilinn og unnu 3:0-sigur. Hafþór Pétursson kom þeim yfir í fyrri hálfleik en Stefán Teitur Þórðarson og Garðar Gunnlaugsson skoruðu svo með mínútu millibili þegar skammt var til leiksloka.

Haukar unnu Selfoss í skrautlegum leik í Hafnarfirði, 5:3, eftir að hafa komist í 4:0 í fyrri hálfleiknum. Þrenna Kenan Turudija fyrir gestina í seinni hálfleik dugði skammt. Haukar eru því nær toppbaráttunni en Selfoss sem situr í 8. sæti með sjö stig.

Njarðvík virtist á góðri leið með að landa sigri gegn Fram suður með sjó, 2:0 yfir þegar rúmt korter var til leiksloka, en sá tími dugði Guðmundi Magnússyni til að skora tvö mörk og jafna metin. Njarðvík er þremur stigum fyrir ofan neðstu lið en Fram í 6. sæti með átta stig. sindris@mbl.is