Þing Þingmenn vinna nú hörðum höndum að síðustu málunum fyrir þinglok.
Þing Þingmenn vinna nú hörðum höndum að síðustu málunum fyrir þinglok. — Morgunblaðið/Hari
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir það geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir útgerðir að ekki muni takast að lækka veiðigjöldin á þessu þingi.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir það geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir útgerðir að ekki muni takast að lækka veiðigjöldin á þessu þingi. „Það að hafa ekki náð fram þessum breytingum núna er alvarlegt. Ég vona að það hafi sem minnst áhrif, en ég óttast að þetta hafi afleiðingar í för með sér sem menn verða þá að horfast í augu við því þingið hafði ekki burði til þess að taka málið til efnislegrar meðferðar eins og lagt var upp með hér í síðustu viku. Það var komið í veg fyrir það,“ segir Óli Björn, spurður um líkleg áhrif þess að veiðigjöld haldist óbreytt fram að áramótum.

„Það er alveg ljóst að það eru margar útgerðir sem glíma við verulegan vanda. Afkoman hefur versnað verulega, útflutningsverðmæti eru mun minni heldur en þau voru en veiðigjöldin hafa verið að hækka. Það er frammi fyrir þessum staðreyndum sem það var rétt og skylt að lækka veiðigjöldin, þ.e.a.s. færa þau nær raunveruleikanum.“

Hann segir nauðsynlegt að horfa til þess að hér sé ekki bara verið að ræða um útgerðir og fiskvinnslu heldur séu fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn sem eiga mörg hver allt sitt undir að það gangi vel. Veiðigjöldin hafi einnig bein áhrif á mörg sveitarfélög. „Þetta hefur bein áhrif á sveitarfélögin, áhrif á samfélög lítil og stór, ef útgerðarfyrirtækin berjast í bökkum og ég tala nú ekki um ef einhver leggja upp laupana. Það er ekki tilgangur veiðigjaldanna að ganga af útgerðum dauðum, heldur að þau séu greiðsla fyrir réttinn og endurspegli afkomu útgerðarinnar og það er ekki að gerast.“

Kjararáð rætt á mánudaginn

Formenn allra flokka sömdu á fimmtudagskvöldið hvaða mál fá afgreiðslu á þingi fyrir þinglok. Óli Björn býst við því að frumvarp um niðurfellingu kjararáðs fari í aðra umræðu á mánudaginn en skipunartími núverandi kjararáðs rennur út 30. júní og með lögunum verður ekki skipað nýtt. Ný persónuverndarlöggjöf verður einnig tekin fyrir í næstu viku og er það stærsta málið sem á eftir að afgreiða á þessu þingi. Persónuverndarlöggjöfin er enn í allsherjar- og menntamálanefnd og mun nefndin funda yfir helgina. Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, býst við því að hægt verði að afgreiða málið úr nefnd um eða eftir helgina.