— Ljósmynd/Emmsjé Gauti
Hvað er 13 13? 13 13 er þrettán daga tónleikaferðalag hringinn í kringum landið þar sem við spilum á sextán tónleikum á þrettán stöðum. Svo erum við samhliða því að framleiða þætti sem birtast á netinu.

Hvað er 13 13?

13 13 er þrettán daga tónleikaferðalag hringinn í kringum landið þar sem við spilum á sextán tónleikum á þrettán stöðum. Svo erum við samhliða því að framleiða þætti sem birtast á netinu. Hugmyndin er að nýta tækifærið til að ferðast hringinn um landið og njóta þess að vera til. Við reynum að velja staði sem eru í uppáhaldi hjá okkur og eru líka fallegir fyrir augað.

Hvar verðið þið um helgina?

Við erum að spila á Ísafirði á laugardaginn og á sunnudaginn verðum við í Flatey. Svo endum við túrinn á Rifi á Snæfellsnesi.

Hvernig er andrúmsloftið í hópnum?

Andrúmsloftið í hópnum er mjög skrítið. Það eru allir ennþá vinir, en það er vissulega farið að segja aðeins til sín hvað við erum búnir að vera lengi í bílnum saman. Þetta er farið að rugla smá í mönnum, við erum að klippa saman þátt sem gerðist í gær, taka upp þátt fyrir morgundaginn en samt reyna að lifa í núinu þannig við erum eitthvernveginn í fortíðinni, framtíðinni og núinu á sama tíma.

Hvað hefur staðið upp úr á ferðalaginu?

Maturinn á Slippnum í Vestmanneyjum var algjört ævintýri fyrir bragðlaukana, en ég held að tónleikarnir í Jarðböðunum á Mývatni hafi verið hápunkturinn hingað til.

Hvað tekur við hjá þér í sumar?

Ég er að fara að opna hamborgarastað í júlí í Vesturbænum sem heitir Hagavagninn, við hliðina á Vesturbæjarlauginni, þannig ég er að fara beint eftir þennan túr að vinna í honum. Svo er ég líka að vinna í plötu, þannig það er ekkert frí þegar við komum til Reykjavíkur. Ég held að ég sé samt spenntastur fyrir að fara heim og knúsa konuna og börnin. Það verður fyrsta verkefnið.