Þórhildur Hagalín
Þórhildur Hagalín
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Hæstiréttur Íslands ógilti í fyrsta sinn hjúskap með dómi á fimmtudag í máli hælisleitanda og íslenskrar konu með þroskafrávik. Sneri dómurinn niðurstöðu héraðsdóms sem hafði hafnað ógildingu.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Hæstiréttur Íslands ógilti í fyrsta sinn hjúskap með dómi á fimmtudag í máli hælisleitanda og íslenskrar konu með þroskafrávik. Sneri dómurinn niðurstöðu héraðsdóms sem hafði hafnað ógildingu.

Hæstiréttur taldi að hjúskapnum að baki hefði legið eindregin ráðagerð mannsins um að öðlast dvalarleyfi hér á landi og byggist niðurstaðan á síðari málslið 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Þar segir að annað hjóna geti krafist ógildingar hjúskapar síns hafi það verið viti sínu fjær þegar vígsla fór fram eða að öðru leyti svo ástatt um það að það mátti þá eigi skuldbinda sig til hjúskapar að lögum.

Standi vörð um bágstadda

„Það er afskaplega dapurlegt að vita til þess að einhverjir vilji nýta sér bágindi fólks með þessum hætti, en jafnframt er gott að sjá að réttarkerfið stendur vörð um þá sem minna mega sín þegar svona atvik koma upp,“ segir Pétur Örn Sverrisson, lögmaður konunnar.

„Þetta er einstakt mál hérlendis. Hjúskapur hefur ekki verið ógiltur hér á landi með dómi áður,“ segir Pétur Örn og tekur fram að í málflutningi hafi verið vísað í dönsk dómafordæmi til að finna sambærilegar aðstæður.

Hæstiréttur leit meðal annars til þess að skammur tími hafði liðið frá fyrstu kynnum hjónanna og þar til þau stofnuðu til hjúskapar, um tveir mánuðir. Fyrir dóminn var lögð matsgerð barna- og unglingageðlæknis, en þar kom m.a. fram að konan hefði skýr einkenni einhverfu og þroskaskerðingar. Þá sagði að hafið væri yfir allan vafa að færni konunnar til að gera sér grein fyrir því hvað fælist í hjónabandi hennar og mannsins væri verulega skert. Taldi Hæstiréttur að í aðdraganda hjúskaparstofnunar hefðu verið uppi svo sérstakar aðstæður með tilliti til andlegrar stöðu konunnar, að þeim yrði fyllilega jafnað við að hún hefði í skilningi ákvæðisins ekki verið bær til að takast þá skuldbindingu á hendur.

Mál mannsins er til skoðunar

Mál mannsins er nú til skoðunar hjá Útlendingastofnun. Ekki hafa fengist upplýsingar um það hver staða umsóknar hans er nú eða hvort hann hafi þegar fengið dvalarleyfi.

Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir að tímabundið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar verði ekki veitt ef staðfestur grunur er um að það sé til málamynda. Sé leyfi veitt, gildi það á meðan forsendur séu enn fyrir því, en síðar geti komið til þess að dvalarleyfi sé veitt ótímabundið.

„Ef grunur er um málamyndahjúskap og sá grunur er staðfestur, þá er ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Að sama skapi er það þannig að ef dvalarleyfi hefur verið veitt á grundvelli hjúskapar sem síðar er felldur úr gildi, þá er forsendan fyrir því dvalarleyfi brostin,“ segir hún og nefnir að hið sama gildi um skilnað. Þórhildur segir að aðrar ástæður geti þó legið að baki veitingu dvalarleyfis.

„Það geta verið komnar forsendur fyrir dvalarleyfi á öðrum grundvelli, t.d. ef viðkomandi hefur eignast börn hér á landi sem eru íslenskir ríkisborgarar o.fl.“ segir hún.