Víkverji fór á fyrirlestur með Jon Kabat-Zinn í Hörpu, en Kabat-Zinn lagði fyrstur manna grunn að iðkun núvitundar í læknisfræði og sálfræði okkar daga.

Víkverji fór á fyrirlestur með Jon Kabat-Zinn í Hörpu, en Kabat-Zinn lagði fyrstur manna grunn að iðkun núvitundar í læknisfræði og sálfræði okkar daga. Víkverji var búinn að bíða spenntur eftir þessum fyrirlestri og langaði að fá innblástur til að fá meiri núvitund í líf sitt.

Ekki byrjaði það vel. Fyrirlesturinn hófst klukkan 19 og það endaði á því að vera talsvert stress hjá Víkverja að ná í tæka tíð enda nóg að gera í vinnu og heima en það tókst að gefa börnum að borða og setjast niður í Silfurbergi í tíma. Stressið yfirtók allt og það hefði áreiðanlega verið gott að kunna að vera meira í núinu og sáttur við sjálfan sig á þessum tímapunkti.

Kabat-Zinn hefur skilgreint núvitundarhugleiðslu sem „meðvitundina sem kemur frá því að veita athygli, viljandi, á núlíðandi stund án þess að dæma“. Hann fékk gesti til þess að beina athyglinni inn á við um stund, nokkuð sem er mjög kærkomið í nútímasamfélagi og sérstök upplifun að sitja í þögn með öllu þessu fólki.

Það sem er merkilegt við hann er einmitt það að hann vill ekki vera merkilegri en aðrir. Hann hefur náð ótrúlega miklum árangri í sínu starfi og líta mjög margir upp til hans. Hann vill samt ekki vera dýrkaður. Í fyrirspurn eftir fyrirlesturinn komu upp umræður um Donald Trump Bandaríkjaforseta og hvernig hann komst til valda. Hluti af því er að fólk skipar sér í hópa; það sjálft og hina, en það er það sem er svo hættulegt. Hinir eru þá eitthvað sem er öðruvísi, eitthvað til að óttast, og hrætt fólk getur gert alls konar vitleysu.

Þetta snýst nefnilega ekki um okkur og hina, fólk er fljótt að flokka allt niður í andstæður og sér þá ekkert nema andstæðinga. Landsbyggðin og Reykvíkingar, miðborgarbúar og úthverfafólk. Þetta er óþarfi, við búum hér öll saman, í sama landi og á sömu jörð.