Gunnar Þorri Pétursson: Stórar, tilvistarlegar spurningar Fjodors Dostojevskís eiga brýnt erindi við okkur enn í dag
Gunnar Þorri Pétursson: Stórar, tilvistarlegar spurningar Fjodors Dostojevskís eiga brýnt erindi við okkur enn í dag — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Skáldsaga Fjodors Dostojevskís, Hinir smánuðu og svívirtu, er komin út í þýðingu Gunnars Þorra Péturssonar, sem segir tilvistarlegar og heimspekilegar spurningar höfundar ekki síður eiga erindi við fólk í dag en á 19. öld. Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is

Fáir hafa kafað eins djúpt í mannssálina eða verið jafn óvægnir í greiningu sinni á henni og Fjodor Dostojevskí, segir Gunnar Þorri Pétursson, sem þýtt hefur Hina smánuðu og svívirtu. Sagan kom fyrst út í Rússlandi árið 1861 en birtist nýlega á íslensku.

„Við erum öll smánuð og svívirt á lífsleiðinni, ekki einu sinni Frelsarinn komst hjá því, en þegar við erum smánuð og svívirt kemur okkar innri maður í ljós, sem og forvitnilegar tilfinningar á borð við gremju, kvalarlosta og sært stolt. Ég held að enginn höfundur hafi verið jafn góður að lýsa særðu stolti og Dostojevskí,“ segir þýðandinn.

Mikil áskorun

Gunnar Þorri nám rússnesku og bókmenntafræði en Hinir smánuðu og svívirtu er fyrsta skáldsagan sem hann íslenskar.

Ingibjörg heitin Haraldsdóttir hóf þýðingu sögunnar en varð snemma að hverfa frá verkinu vegna veikinda. „Ingibjörg fól mér að taka við keflinu og það þótti mér mikill heiður,“ segir Gunnar Þorri.

Hann vann þrjú ár að þýðingunni. „Það var ákveðin kúnst að vera trúr hennar þýðingarstíl en um leið ryðja Dostojevskí-þýðingum nýja braut. Stundum hefur verið talað um að hann sé margradda höfundur, ég reyni að vera trúr þeirri margröddun en raddsetja um leið fyrir tvo þýðendur.“

Gunnar Þorri segir verkefnið hafa verið mikla áskorun en gríðarlega skemmtilegt um leið. Að læra rússnesku sé að nokkru leyti eins og ganga í barndóm að nýju: „Maður lærir nýtt letur, lærir því að skrifa upp á nýtt og ég handskrifaði til dæmis bróðurpart fyrsta uppkastsins. Í næstu umferð pikkaði ég textann á ritvél sem faðir minn gaf mér og það var ekki fyrr en í lokaáfanganum sem ég sló textann inn á tölvu. Þetta var mín leið til að fara frá 19. öldinni yfir í þá 20. og svo inn í 21. öldina.“

Bókin er skrifuð á tímamótum í lífi rithöfundarins. „Hann skýst ungur upp á stjörnuhimin rússneskra bókmennta með Fátæku fólki, sögu sem er lítið þekkt í dag, en höndlaði ekki frægðina, lenti í miklum vandræðum og leiddist í neðanjarðarhópa sem lögðu á ráðin um byltingu. Þetta var 1848, þegar uppreisnaralda skók Evrópu, og fyrir þátttöku í leynilegum hring var Dostojevskí fangelsaður og sendur til Síberíu. Þar var hann í mörg ár og vegna þess að hann var fangi missti Dostojevskí öll sín borgaralegu réttindi, þar á meðal réttindi til að gefa út. Hann náði því ákveðnum botni en fékk um leið algjörlega nýja sýn á sjálfan sig, þjóð sína og skáldskapinn við það að samneyta glæpamönnum og alþýðu manna í Síberíu. Þessi saga er skrifuð þegar hann spyrnir sér frá botninum, snýr aftur til Pétursborgar og hyggst reisa ritferil sinn úr öskustónni.“

Gunnar Þorri segir það auka enn á áhrifin að augljósir ævisögulegir drættir séu í sögunni. Aðalsöguhetjan er ungur rithöfundur og minnir lífshlaup hans mjög á það sem höfundurinn hafði reynt á eigin skinni.

Óhaminn og villtur

„Um þessar mundir hillir undir gullöldina í rússneskri skáldsagnaritun. Lev Tolstoj er nýkominn fram á sjónarsviðið þegar Dostojevskí skrifar Hina smánuðu og svívirtu, Feður og synir eftir Ívan Túrgenjev fylgir fast á hæla hennar og á næstu árum skrifar Dostojevskí verkin sem tryggðu honum sæti við háborð heimsbókmenntanna: Glæp og refsingu, Fávitann, Djöflana og síðar Karamazov-bræðurna.

Hinir smánuðu og svívirtu er eins og upptakturinn að þessum miklu verkum; þetta er fyrsta langa skáldsaga Dostojevskís og eitt af því sem gerir hana svo skemmtilega er hve óhaminn hann er og villtur; segja má að þarna fylgist maður með Dostojevskí verða að Dostojevskí!“

Gunnar Þorri segir að lokum, að ekkert jafnist á við rússnesku 19. aldar skáldsöguna. „Sögusviðið er stórt, persónugalleríið margbrotið, dramatíkin mikil og samtölin djúp. Hlutverk höfundarins er í senn að skemmta og varpa fram stórum, tilvistarlegum spurningum. Það er ekki síst þess vegna sem Dostojevskí á brýnt erindi við okkur enn í dag.“