[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Steingrímur Eyjólfsson steingrimur@mbl.is Landsframleiðsla á fyrsta ársfjórðungi jókst um 6,6% miðað við sama fjórðung í fyrra, samkvæmt nýjum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar sem birtir voru í gær.

Baksvið

Steingrímur Eyjólfsson

steingrimur@mbl.is

Landsframleiðsla á fyrsta ársfjórðungi jókst um 6,6% miðað við sama fjórðung í fyrra, samkvæmt nýjum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar sem birtir voru í gær. Þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, jukust um 6,8%. Einkaneysla jókst um 5,9%, samneysla um 2,9% og fjárfesting um 11,6%. Útflutningur jókst um 10,2% og innflutningur um 10,9%.

Leiðrétt landsframleiðsla minni

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst um 1,1% milli fjórða ársfjórðungs 2017 og fyrsta fjórðungs þessa árs. Með árstíðaleiðréttingu er leitast við að greina og fjarlægja árstíðabundnar sveiflur í gögnunum, til þess að auðvelda samanburð talna innan hvers árs og á milli samliggjandi fjórðunga. Rétt er að taka fram að niðurstöður Hagstofunnar fyrir árin 2016-2018 eru bráðabirgðatölur sem gætu tekið breytingum, ef ýtarlegri upplýsingar liggja fyrir.

Einka- og samneysla eykst

Einkaneysla jókst um 5,9% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við sama fjórðung í fyrra. Einkaneyslan jókst hins vegar einungis um 1,1% ef hún er borin saman við fjórða fjórðung síðasta árs. Í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans er vakin athygli á því að eitt af einkennum núverandi uppsveiflu sé að vöxtur einkaneyslu hafi verið minni en vöxtur kaupmáttar. Það er fyrst nýverið sem vöxturinn í einkaneyslu hefur tekið fram úr aukningu kaupmáttar.

Á fyrsta ársfjórðungi var samneysla 2,9% meiri en á sama fjórðungi í fyrra, en einungis 0,8% meiri sé miðað við síðasta fjórðung 2017.

Íbúðafjárfesting jókst um 38%

Vöxt í fjárfestingu má að mestu rekja til íbúðafjárfestingar sem jókst um 38% miðað við fyrsta ársfjórðung í fyrra. Fjárfesting atvinnuvega jókst um 7,1% og um 2,2% hjá hinu opinbera. Inn- og útflutningur skipa og flugvéla getur haft veruleg áhrif á fjárfestingu ársins. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst fjárfesting atvinnuvega um 5,5% borið saman við sama ársfjórðung í fyrra.

Alls jókst fjárfesting á milli ára um 11,6% á fyrsta ársfjórðungi, en dróst saman um 1,5% borið saman við fjórða ársfjórðung í fyrra þótt íbúðafjárfesting hefði aukist um 11%.

Vöruútflutningur vex hratt

Útflutningur jókst um 10,2% á fyrsta ársfjórðungi milli ára, sem er mesti vöxtur síðan á þriðja fjórðungi 2016. Vöruútflutningur jókst um 17,5% og þjónustuútflutningur um 5,3%. Landsbankinn telur þetta töluverð tíðindi, þar sem vöxtur þjónustuútflutnings hefur verið meiri en vöruútflutnings síðustu ár. Mikinn vöxt vöruútflutnings má meðal annars rekja til aukins útflutnings á þorski en sjómannaverkfall varð til þess að lítið var um veiðar á fyrstu tveimur mánuðum síðastliðins árs.

Hagvöxtur fyrsta fjórðungs var nokkuð umfram væntingar. Hagvaxtarspár greiningardeilda og opinberra aðila liggur á bilinu 2,6-4,1% fyrir árið í heild.

Þjóðhagsreikningar
» Hagstofan sendi upphaflega ranga niðurstöðu frá sér í gærmorgun um að hagvöxtur hefði verið 5,4%.
» Það var leiðrétt síðar um daginn og hagvöxtur hækkaður í 6,6%.
» Villan leyndist í útreikningi á utanríkisviðskiptum.