Berglind Ósk segir alla geta upplifað blekkingarheilkenni.
Berglind Ósk segir alla geta upplifað blekkingarheilkenni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þegar fólk fer að upplifa það sterkt að það standist ekki samanburð við aðra og finnst það standa sig illa, þótt ekkert bendi til þess, þá getur verið að það sé haldið blekkingarheilkenni eða loddaralíðan.

Þegar fólk fer að upplifa það sterkt að það standist ekki samanburð við aðra og finnst það standa sig illa, þótt ekkert bendi til þess, þá getur verið að það sé haldið blekkingarheilkenni eða loddaralíðan. Því hefur Berglind Ósk Bergsdóttir kynnst og nú heldur hún fyrirlestra um fyrirbærið og vill hjálpa öðrum að átta sig á hvað er til ráða. Guðrún Óla Jónsdóttir gudruno@mbl.is

Be rglind Ósk tölvunarfræðingur var búin að vinna við þróun hugbúnaðar hjá Plain Vanilla í þrjú ár þegar hún upplifði kulnun í starfi. Henni fannst hún ekki standast samanburð við vinnufélaga sína og reyndi að sanna sig með því að taka á sig meiri vinnu. Það endaði með því að hún brann út. Hún tók sér leyfi frá vinnu og fór til sálfræðings þar sem hún rakst á hugtak sem á ensku hefur oftast verið kallað impostor syndrome, en þýtt ýmist sem blekkingarheilkenni eða, eins og hún kýs að kalla það, loddaralíðan. Það lýsir sér þannig að einstaklingnum finnst hann ekki standa sig vel, allir aðrir séu hæfari og klárari og það sé bara tímaspursmál hvenær upp komist að hann sé ekki eins klár og allir haldi.

„Rannsóknir hafa sýnt að um 70% af fólki hafa upplifað þessa líðan á einhverjum tímapunkti, en það er misjafnt hversu sterkt, hversu lengi og hversu oft. Þetta getur komið fyrir alla, jafnvel fólk sem er búið að ná frama og er á góðum stað í lífinu, sem gefur til kynna að þetta sé ekki raunhæft mat. Einkennin eru viðvarandi kvíði og vanmáttarkennd og hræðsla við að taka á sig meiri ábyrgð þótt mann langi til þess. Sumir nota líka þá leið að vinna meira til að sanna sig. Ég gerði það sjálf og það fór ekki vel.“

Berglind hefur lesið sér mikið til um heilkennið og haldið fyrirlestra bæði hér heima og í Bandaríkjunum og Evrópu.

„Ég hef fengið ótrúlega mögnuð viðbrögð við fyrirlestrunum. Sumir hafa ekki heyrt um þetta áður á meðan aðrir tengja strax. Það er svo gott að fá að vita að maður sé ekki einn að glíma við þetta.“

Er þetta algengara í einhverjum ákveðnum starfsgreinum en öðrum?

„Já, þetta er mjög algengt í greinum þar sem er mikill hraði og pressa, eins og í tölvunargeiranum, og í skapandi greinum. Að undanförnu hafa t.d. margar kvikmyndastjörnur og margir leiðtogar stigið fram og talað um að þeim líði svona enn í dag. Þar á meðal leikkonan Meryl Streep og Cheryl Sandberg, fyrrverandi framkvæmdastjóri Facebook.“

Er eitthvað sérstakt sem orsakar þetta heilkenni?

„Rannsóknir sýna að nokkrir þættir geta stuðlað að því. Til dæmis ef börn fá misvísandi skilaboð í uppeldinu; þeim annaðhvort hrósað of mikið eða of lítið. Það getur leitt til brenglunar í að leggja raunhæft mat á hæfileika sína og afrakstur. Líkurnar aukast í minnihlutahópum og oft hefur verið talað um að konur lendi frekar í þessu.“

Flestir, ef ekki allir, finna einhvern tíma til vanmáttarkenndar á ævinni. Hvað skyldi vera til ráða ef hún er komin út fyrir það sem eðlilegt getur talist og jafnvel farin að há manni? „Fyrsta skrefið er að tala um þessa líðan við aðra; það hjálpar rosalega mikið að tala um þetta. Vinnuumhverfið þarf líka að vera heilbrigt og traust þannig að fólk geti beðið um hjálp og finni að það sé allt í lagi að viðurkenna að maður viti ekki allt. Það er gott að skoða styrkleika sína og veikleika, skrifa þá niður og velta fyrir sér af alvöru í hverju maður sé góður; hvar maður standi sig vel. Og gera það sama varðandi veikleikana.“

Læknast maður einhvern tíma af þessu?

„Ég held að maður losni aldrei alveg við þetta, þetta er bara mannleg líðan. Ég er meðvituð um það þegar hún gerir vart við sig hjá mér og er farin að vita að þetta gerist þegar ég er að byrja á nýju verkefni. Til dæmis þegar ég er að takast á við eitthvað sem ég kann ekki eða er að læra eitthvað nýtt. Í staðinn fyrir að líða illa út af því þá skilgreini ég tilfinninguna og geri mér grein fyrir því að mér líður svona af því að ég er að læra eitthvað nýtt. Ég segi við sjálfa mig að það sé bara allt í lagi og þá hverfur þetta.“