Krafa um lágmarksfjölda leikskólakennara á enn langt í land.
Krafa um lágmarksfjölda leikskólakennara á enn langt í land. — Morgunblaðið/Hari
Mikil fækkun brautskráninga í kennaranámi og flutningur kennara í önnur störf samfélagsins undanfarin ár eru meðal ástæðna þess að illa getur gengið að ráða í stöður kennara og leiðbeinenda.

Færri sækja í kennaranám en áður, en í skýrslu ríkisendurskoðanda frá 2017 kemur fram að nýnemum í kennaranámi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri fækkaði um meira en helming á tímabilinu 2009-2016. Auk þess sem skortur er á nýjum kennurum vinna margir lærðir kennarar við önnur störf, sem bendir til að starfskjörin séu ekki eftirsóknarverð og að auknar brautskráningar dugi ekki til að leysa vandann.

Stéttin eldist

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarafélags Íslands, segir að álag í störfum kennara hafi aukist mjög síðustu ár. „Kennarastéttin er að eldast, nýliðun er lítil og þeir sem ljúka kennaranámi fara ekki í kennslu eða hverfa til annarra starfa á fyrstu árum í starfi,“ segir hún. „Því miður sækja ekki margir í kennaranám en þó höfum við vísbendingar um að málin séu að þokast í rétta átt og voru til dæmis helmingi fleiri sem sóttu í kennaranám við Háskólann á Akureyri í ár en í fyrra.“

Anna segir meðalaldur kennara fara hækkandi. „Hæstur er meðalaldur kennara í Félagi framhaldsskólakennara eða 51 ár. Hann er litlu lægri í Félagi tónlistarskólakennara eða 49 ár og í Félagi grunnskólakennara er hann 47 ár og 43,5 ár í Félagi leikskólakennara. Í stjórnendafélögunum er meðalaldur hærri eða 52-53 ár.“

Launatengdar ástæður

Anna telur meginástæðu þess að illa gæti gengið að ráða í störf vera launatengda. „Starfið er mjög gjöfult en krefjandi og álag jókst gríðarlega eftir hrun, þegar dregið var úr fjárveitingum til skóla. Hvað leikskólastigið varðar eru ástæður þar dálítið sérstakar. Sveitarfélögin keppast við að veita þjónustu sem þau hafa ekki efni á. Börn fá skólavist í leikskólum sífellt yngri og langt er frá því að lög um að tveir þriðju hlutar starfsfólks á leikskólum séu leikskólakennarar séu uppfyllt.“

Skólinn er lífkerfi

Anna telur að margt þurfi að gera til að ástandið batni. „Stjórnvöld þurfa að ákveða að menntun sé mikilvæg og það er mikilvægasta verkefni samfélagsins að búa vel að komandi kynslóðum og sjá þeim fyrir góðri menntun. Ef slíkt á að nást þarf að sameinast um að vinnustaður barna og unglinga skipti máli og bæði þarf að búa vel að þeim og kennurunum sem leiða þá áfram á þroskabrautinni. Það er ekki einungis líf eftir skóla – í skólunum sjálfum er heilt lífkerfi. Á hverju skólastigi þroskast nemandi, lærir, skapar og tekur þátt í lífinu á sínum eigin forsendum með þátttöku í innihaldsríku skólastarfi.

Til að ástandið batni þurfum við hvort sem við erum kennarar, stjórnvöld eða fólkið í landinu að sameinast um frábært skólastarf. Gæði skólastarfs verða nákvæmlega jafn mikil og við viljum. Kennarastarfið er flókið og því fylgir mikið álag. Til að laða ungt fólk til kennaranáms þarf að meta það að verðleikum, ekki bara með fögrum orðum heldur aðgerðum.

Allir foreldrar vilja að börnin þeirra hafi góða kennara, vilja foreldrar að börnin þeirra verði kennarar? Þessari spurningu þarf samfélagið að svara.“

Upplifanir skólastjóra

Skólastjórar upplifa stöðuna á misjafnan hátt. „Við upplifum að það sé skortur á fólki með leyfisbréf til kennslu á grunnskólastigi. Þetta er ekkert sem kemur á óvart,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélagsins og skólastjóri í Árbæjarskóla. „Við höfum búist við því að það kæmi viðvarandi kennaraskortur og það er nú raunin. Það er engin ein ástæða að baki skortinum, heldur eru þær margar og samverkandi,“ segir hann. „Það eru of fáir sem útskrifast, kennarar hafa horfið til annarra starfa í samfélaginu og á meðan nýliðun er lítil í stéttinni þá eldist hún.“

Þorsteinn telur ekki að það sé mikill munur á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni þegar kemur að þessum vanda. „Það eru til dæmi um skóla þar sem ekki er kennaraskortur, en almennt yfir landið er skortur á kennurum með leyfisbréf.“

Sigríður Anna Guðjónsdóttir, skólastjóri í Ísaksskóla, segir að þar sé ráðið í allar stöður. „Hér vantar engan og enginn að hætta,“ segir Sigríður. Við höldum áfram að fá mjög góðar umsóknir til okkar.“

Magnús Jón Magnússon, skólastjóri í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, segir að þar hafi gengið vel að ráða í auglýstar stöður og að margar umsóknir hafi borist. „Við óttuðumst að þessum umsóknum myndi fækka þegar óvíst var um kjaramál kennara, en við í Árborg urðum ekki vör við það. Þessi fækkun mun líklega koma aðeins seinna,“ segir Magnús. „Undanfarin tvö ár hafa margir kennarar farið úr kennslu og í ferðaþjónustuna, en þegar samdráttur verður þar þá munu þeir líklega koma til baka.“