Útlærð Karen og Sudeska lærðu bæði bifvélavirkjun en stefna nú á íþróttafræði og viðskiptafræði. Þau undirbúa sig fyrir háskólanámið í háskólagrunni Háskólans í Reykjavík. Námið er krefjandi og hraðinn í náminu mikill.
Útlærð Karen og Sudeska lærðu bæði bifvélavirkjun en stefna nú á íþróttafræði og viðskiptafræði. Þau undirbúa sig fyrir háskólanámið í háskólagrunni Háskólans í Reykjavík. Námið er krefjandi og hraðinn í náminu mikill. — Morgunblaðið/Kristinn
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Karen Ólafsdóttir og Sudeska Gema Kuasa eru meðal þeirra sem hófu nám í frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík síðasta haust.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Karen Ólafsdóttir og Sudeska Gema Kuasa eru meðal þeirra sem hófu nám í frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík síðasta haust. Þar leggja þau stund á háskólagrunn sem er eins árs nám ætlað til undirbúnings fyrir háskólanám. Þau eru bæði menntaðir bifvélavirkjar. Karen er frá Ísafirði og hóf nám í Menntaskólanum á Ísafirði þar sem hún stundaði nám í tvö ár en flosnaði svo upp úr því. „Ég var lögð í einelti á Ísafirði og það stoppaði ekkert þegar ég fór í menntaskóla. Ég ákvað því að hætta í skóla og fór upp á eigin spýtur til Reykjavíkur, þá átján ára, og hóf nám í tækniteiknun. Það var erfitt að fá vinnu sem tækniteiknari svo ég ákvað að læra bifvélavirkjann líka.“

Slys breytti námsvalinu

Karen langaði seinna að mennta sig meira og stefndi á verkfræði. Þá fór hún í háskólagrunn hjá Háskólanum í Reykjavík til þess að undirbúa sig fyrir námið en eftir að hún byrjaði í háskólagrunninum hafa markmiðin breyst. „Ég lenti í slysi eftir að ég byrjaði í náminu. Ég fann hvernig hreyfing hjálpaði mér að ná bata, bæði líkamlega og andlega, og ákvað að ég þyrfti að miðla þessari reynslu minni áfram. Ég held að íþróttafræðin sé tilvalin til þess.“ Karen ætlar sér að hefja nám í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík næsta haust enda er hún ánægð með námið þó það hafi oft verið strembið.

Sudeska útskrifaðist sem bifvélavirki vorið 2017 og ákvað svo að vinda sér strax í háskólagrunn Háskólans í Reykjavík. „Mig langaði að taka stúdentspróf líka til þess að hafa fleiri möguleika. Mér fannst spennandi að fara í háskólagrunninn í HR því ég vissi að mig langaði að fara í HR einn daginn.“

Persónuleg kennsla

Hann kveðst ánægður með námið, sem hann segir krefjandi og skemmtilegt. „Þetta er auðvitað keyrt frekar hratt áfram svo hraðinn fékk mig til að læra að skipuleggja mig betur. Ég hefði ekki getað beðið um betri aðstöðu. Kennararnir eru mjög hjálpsamir og kennslan persónuleg.“ Sudeska stefnir á að læra viðskiptafræði í framtíðinni en ætlar fyrst að taka sér námshlé og vinna sem bifvélavirki.