Fundur Kjartan Bjarni Björgvinsson kynnti niðurstöður úttektar sem unnin var að beiðni forsætisráðherra.
Fundur Kjartan Bjarni Björgvinsson kynnti niðurstöður úttektar sem unnin var að beiðni forsætisráðherra. — Morgunblaði/Arnþór
Guðrún Hálfdánardóttir guna@mbl.is Velferðarráðuneytinu bar að gera frekari athuganir á kvörtunum barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu vegna Barnaverndarstofu og Braga Guðbrandssonar, forstjóra hennar. Ávirðingar voru þess eðlis.

Guðrún Hálfdánardóttir

guna@mbl.is

Velferðarráðuneytinu bar að gera frekari athuganir á kvörtunum barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu vegna Barnaverndarstofu og Braga Guðbrandssonar, forstjóra hennar. Ávirðingar voru þess eðlis.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í óháðri úttekt á málsmeðferð og efnislegri athugun velferðarráðuneytisins sem kynnt var á fundi með blaðamönnum í gær. Meðal þess sem þar kom fram var að athugasemd var gerð við hvernig velferðarráðuneytið tók á málum Barnaverndarstofu og forstjóra stofnunarinnar.

Upphaf þessa máls má rekja til kvartana sem komu fram á fundi sem Þorsteinn Víglundsson, þáverandi ráðherra félags- og jafnréttismála, átti með Tómasi Hrafni Sveinssyni, formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Þórdísi Bjarnadóttur, formanni barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar, og Kolbrúnu Þorkelsdóttur, formanni barnaverndarnefndar Kópavogs, ásamt Regínu Ásvaldsdóttur, sviðstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, en fundurinn mun hafa verið haldinn að beiðni formannanna.

Töldu stöðuna alvarlega

Af gögnum málsins verður ráðið að tilefni fundarins hafi verið að formenn framangreindra barnaverndarnefnda töldu alvarlega stöðu vera uppi í barnaverndarmálum á höfuðborgarsvæðinu og þar voru alvarlegar athugasemdir gerðar við háttsemi og framgöngu Braga og annars starfsfólks. Bragi er nú í eins árs leyfi frá stofnuninni.

Í byrjun síðasta mánaðar tilkynnti forsætisráðuneytið að áðurnefnd úttekt færi fram og var hún unnin að ósk Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Ekki brot í Hafnarfjarðarmálinu

Ein af niðurstöðum úttektarinnar var að Bragi hefði ekki brotið af sér með upplýsingagjöf til afa barna í Hafnarfirði, svokölluðu Hafnarfjarðarmáli, en að velferðarráðuneytið hefði gerst brotlegt við grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins um andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Í úttektinni er einnig fundið að þeirri niðurstöðu sem velferðarráðuneytið tilkynnti forstjóra Barnaverndarstofu 27. febrúar 2018 að hann hafi átt að beina máli sem hann hafði afskipti af hjá barnavernd Hafnarfjarðar í annan farveg og að hann hafi farið út fyrir verksvið sitt með því að gera það ekki.

Fór út fyrir valdsvið sitt

Í úttektinni eru tiltekin 18 dæmi þar sem forstjóri Barnaverndarstofu virðist hafa farið út fyrir valdsvið sitt. M.a. hafði hann bein afskipti af barnaverndarmáli sem var í vinnslu hjá barnavernd Reykjavíkur. Hann virðist hafa lofað yfirvöldum í tilteknu landi því að barn yrði á Íslandi og færi ekki í umsjón annars foreldris. Hann hafi komið að tilhögun þess að barn færi á BUGL, en ekki verði séð að lagaheimild hafi verið fyrir þeim afskiptum. Þá hafi hann hringt drukkinn í tvígang í starfsmann barnaverndar Reykjavíkur vegna tveggja telpna, en faðir þeirra var vinur Braga. Af samtölum við starfsmenn nefndarinnar sé ljóst að slík tilvik séu í raun miklu fleiri þar sem afskipti Braga hafi ekki alltaf verið skráð.

Að sögn Kjartans er boltinn nú í höndum velferðarráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um hver næstu skref verða í málinu.