Útsýnið hefur aðeins breyst frá því Ingi Þór vann síðast á Rás 2.
Útsýnið hefur aðeins breyst frá því Ingi Þór vann síðast á Rás 2. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í því ljósi skora ég á húsbændur í hinu innmúraða útvarpshúsi við Efstaleiti að hamra járnið meðan það er heitt og ráða Inga Þór Ingibergsson aftur til fastra starfa eins fljótt og auðið er!

Djöfull (afsakið orðbragðið!) var gaman að heyra aftur í Inga Þór Ingibergssyni á Næturvakt Rásar 2 um síðustu helgi eftir alltof langt hlé. Það var sem kunnugt er mesta níðingsverk íslenskrar útvarpssögu þegar rásin sagði honum óvænt upp um árið. Það var svolítið eins og að Heimir Hallgrímsson myndi boða til blaðamannafundar nú síðdegis og reka Gylfa Þór Sigurðsson úr íslenska fótboltalandsliðinu.

Ingi Þór er algjör yfirburðamaður í útvarpi; kann þá list að bræða saman fagmennsku og kæruleysi, auk þess sem maðurinn býr bara að svo mikill eðlislægri hlýju og vönduðum húmor. Svo er hann auðvitað með málm í æðum – sem spillir svo sannarlega ekki fyrir.

Þetta eru allir þeir eiginleikar sem umsjónarmaður Næturvaktarinnar, þess gamalgróna og ómissandi þáttar, þarf að hafa til að bera. Guðna Más Henningssonar, annars náttúrubarns í útvarpi, er sárt saknað en enginn núlifandi Íslendingur er betur til þess fallinn að fara í skóna hans en Ingi Þór. Það heyrðist glöggt á máli innhringjenda um liðna helgi þegar Ingi Þór hljóp í skarðið fyrir núverandi stjórnanda þáttarins, Heiðu Eiríksdóttur, sem brá sér út fyrir landsteinana. Nánast hver einasti maður fagnaði endurkomu hans eins og sigri Íslands á HM meðan ég var að hlusta. Því miður náði ég ekki öllum þættinum.

Með þessu vil ég alls ekki gera lítið úr Heiðu; hún er frábær útvarpskona. Þættir af öðru tagi henta henni hins vegar betur en Næturvaktin. Þar vega samskipti við hlustendur þungt og Heiða er einfaldlega ekki eins sterk á því svelli og Ingi Þór. Þann vitnisburð hefur vorið fært okkur heim í stofu. Dínamíkin er því miður ekki til staðar. Að því sögðu voru ekki allir hlustendur tilbúnir að gefa henni tækifæri. Þeir verða vitaskuld að skilja að Heiða er ekki Guðni Már og á ekki að reyna að vera það. Hún stjórnar á sínum forsendum og lagaval hennar hefur á köflum verið djarft og skemmtilegt. En það breytir ekki því að Næturvaktin er fyrst og síðast þáttur hlustenda og þeim líkar illa að vera ýtt út í horn.

Ingi Þór stökk bara inn um liðna helgi en mér fannst alveg á honum að hann væri til í að taka giggið oftar að sér. Ef til vill er það bara óskhyggja hjá mér. Vegna smæðar þessa samfélags tek ég fram að ég þekki Inga Þór ekki neitt; hef hvorki hitt manninn né talað við hann. Er of feiminn að eðlisfari til að hringja inn í beina útsendingu. Hann færði mér bara ómælda gleði gegnum viðtækið eftir að ég uppgötvaði hann og enduruppgötvaði Næturvaktina fyrir nokkrum árum.

Í því ljósi skora ég á húsbændur í hinu innmúraða útvarpshúsi við Efstaleiti að hamra járnið meðan það er heitt og ráða Inga Þór Ingibergsson aftur til fastra starfa eins fljótt og auðið er!

Rétt eins og nafni hans, Gylfi Þór, er hann of góður til að sitja á varamannabekknum.