[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM 2019 Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is „Þessi leikur á móti Slóveníu leggst mjög vel í mig.

HM 2019

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Þessi leikur á móti Slóveníu leggst mjög vel í mig. Við erum búnar að æfa vel núna í tvo daga og svo höldum við áfram á sömu braut um helgina og ég er bara orðin mjög spennt,“ sagði Selma Sól Magnúsdóttir, miðjumaður Breiðabliks og íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið á æfingu liðsins á Laugardalsvelli í gær.

Ísland mætir Slóveníu í undankeppni HM á mánudaginn á Laugardalsvelli en með sigri getur Ísland tyllt sér á toppinn í 5. riðli. Selma Sól hefur verið viðloðandi landsliðshópinn í undanförnum leikjum en hún fór með liðinu á Algarve-æfingamótið í Portúgal sem fram fór í mars á þessu ári.

„Auðvitað vonast ég til þess að spila gegn Slóveníu. Maður vill alltaf spila og það væri gaman að fá mínútur í þessum mikilvæga leik.“

Skýr markmið í Kópavogi

Breiðablik hefur komið á óvart í Pepsi-deild kvenna í sumar, þrátt fyrir að hafa misst marga lykilmenn. Liðið situr á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, líkt og Þór/KA sem er ríkjandi Íslandsmeistari.

„Við ætluðum okkur stóra hluti í sumar og planið var að vinna alla maíleikina. Það gekk eftir og nú er bara að byggja ofan á þetta góða gengi. Nýju stelpurnar hafa komið mjög vel inn í þetta hjá okkur. Þær eru vissulega mjög ungar en þrátt fyrir það eru þær með ágætis reynslu. Karólína Lea og Alexandra Jóhanns eru báðar með reynslu í efstu deild og þær voru í stóru hlutverki hjá sínum liðum, áður en þær sömdu við Breiðablik. Þær hafa aðlagast fljótt og í raun bara smellpassað inn í okkar leik. Gengið hefur verið eftir því og ég er bara mjög ánægð með þessa byrjun. Ég er búin að spila mikið með Alexöndru á miðjunni og hún situr meira til baka og dreifir spilinu. Við höfum náð mjög vel saman og það er frábært að spila með henni.“

Sátt við ákvörðun sína

Selma er á leið í South Carolina-háskólann í Bandaríkjunum sem er einn öflugasti skólinn í háskólaboltanum þar í landi.

„Það er ekki alveg komið á hreint hvenær ég fer út og ég veit því ekki hvort ég muni klára tímabilið með Breiðabliki. Ég lít alls ekki á þetta sem skref niður á við. Þetta er einn besti skólinn í Bandaríkjunum hvað knattspyrnu varðar og aðstaðan þarna er til fyrirmyndar. Það eru leikmenn þarna sem eru fastamenn í yngri landsliðum Bandaríkjanna og þjálfararnir þarna eru í hæsta gæðaflokki. Það var ein stelpa úr liðinu kölluð inn á A-landslið Bandaríkjanna á dögunum þannig að ég er að fara þarna út, fyrst og fremst til þess að bæta mig sem knattspyrnumaður og ég er sátt við ákvörðun mína.“

Þessi öflugi miðjumaður setur stefnuna á atvinnumennsku í framtíðinni en ítrekar að hún sé ekki að drífa sig um of.

„Atvinnumennskan hefur alltaf heillað og það var til umræðu líka. Ég er hins vegar ung og það er ekkert sem segir að ég geti ekki farið út í atvinnumennsku þegar ég er orðin 24 ára gömul,“ sagði Selma Sól létt að lokum í samtali við Morgunblaðið.