Er ég einn um að hafa áhyggjur af því að köflótt gengi í vináttulandsleikjunum tveimur gegn Noregi og Gana geti komið í bakið á íslenska liðinu þegar á hólminn er komið í Moskvu, Volgograd og Rostov?
Er ég einn um að hafa áhyggjur af því að köflótt gengi í vináttulandsleikjunum tveimur gegn Noregi og Gana geti komið í bakið á íslenska liðinu þegar á hólminn er komið í Moskvu, Volgograd og Rostov?

Mér finnst fáir vera sérstaklega stressaðir yfir því að íslenska landsliðið skuli hafa misst niður unna leiki á lokasprettinum fyrir HM. Annan niður í tap og hinn niður í jafntefli.

Liðið fékk á sig fimm mörk gegn Noregi og Gana, sem er ekki alveg í takti við þá staðreynd að Ísland fékk samtals á sig tvö mörk í fimm heimaleikjum í undankeppninni.

Við sáum vissulega eitt og annað ágætt í leikjunum tveimur og það jákvæðasta var sennilega fullvissan um að Gylfi Þór Sigurðsson væri kominn á góða siglingu á réttum tíma fyrir Rússlandsferðina. Hannes er tilbúinn í markið og Aron Einar virðist vera á réttri leið en í kapphlaupi við tímann sem fyrr.

Auðvitað er vináttulandsleikur annað en mótsleikur. Það höfum við svo sannarlega fengið að sjá á undanförnum árum. Vonandi eru þessar áhyggjur mínar ástæðulausar.

En þessir leikir eru að baki. Í dag flýgur íslenska liðið til Gelendzhik við Svartahaf og býr sig þar af kostgæfni undir stærsta verkefnið í sögunni.

Eftir aðeins eina viku, laugardaginn 16. júní, verður flautað til leiks í viðureigninni gegn Lionel Messi og félögum í argentínska liðinu í Moskvu.

Þá er eins gott að einbeiting
in verði orðin 100 prósent og við fáum að sjá „Mótsleikja-Ísland“ ganga inn á völlinn en ekki „Vináttuleikja-Ísland“. Þetta eru nefnilega tvö ólík lið.