Gísli Marteinn Lýsti sigrum á söngvakeppni í Portúgal.
Gísli Marteinn Lýsti sigrum á söngvakeppni í Portúgal. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Málfarsráðunautur RÚV, Anna Sigríður Þráinsdóttir, kemur reglulega í spjall um íslenskt mál í morgunþætti stöðvarinnar. Anna kemur oft með mjög áhugaverða punkta.

Málfarsráðunautur RÚV, Anna Sigríður Þráinsdóttir, kemur reglulega í spjall um íslenskt mál í morgunþætti stöðvarinnar. Anna kemur oft með mjög áhugaverða punkta. Fyrir skömmu sagði hún frá því hvernig nýliðar í íþróttafréttamennsku væru teknir sérstaklega í kennslu í hvernig nota ætti sagnirnar að vinna og sigra.

Þetta kannast ég heldur betur við, enda innprentað í alla sem koma nálægt íþróttum á Mogganum að þú vinnur leiki en sigrar andstæðing. Ekki öfugt. Í almennum fréttum heyrist þetta hins vegar ítrekað rangt notað og fólk sigrar alls konar mót og annað sem það tekst á við í lífinu. Meira að segja reyndir fréttaþulir sjónvarpsstöðvanna flaska oft á þessu.

Anna sagði að vandamálið væri að þeir sem kæmu að einstökum þáttum sem „sérfræðingar“ eða fjölluðu ekki að staðaldri um íþróttir þekktu ekki muninn á að vinna og sigra. Þannig vildi til að þetta var í upphafi „Evróvisionviku“ og Gísli Marteinn farinn til Portúgals til að lýsa fyrir sjónvarpið. Og viti menn, þar „sigraði“ fólk keppnina í nútíð og þátíð alla vikuna. Anna hefur eflaust reytt hár sitt í örvæntingu og hlýtur að hafa kallað Gísla á einkanámskeið við heimkomuna!

Víðir Sigurðsson