Hefur heilbrigðisráðherra stuðning samstarfsflokkanna til að brjóta niður einkareksturinn?

Ríkisstjórnin gafst upp og bakkaði í vikunni frá málum sínum við minnsta mótbyr. Litlum minnihluta á þingi er leyft að taka völdin og eftir situr veikari ríkisstjórn sem hefur sýnt slíkt stefnu- og forystuleysi að erfitt er að sjá að hún muni ná tökum á því verkefni sem henni hefur verið falið.

Á sama tíma og ríkisstjórnin sýnir þessi veikleikamerki gerist það – og ef til vill má segja að það sé önnur birtingarmynd veikleikans – að heilbrigðisráðherra rekur af mikilli óbilgirni stefnu sem ekki verður séð að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórnarsamstarfinu hafi skrifað upp á. Heilbrigðisráðherrann er kominn í stríð við einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og virðist hafa einsett sér að nýta tímann í ráðuneytinu til að þrengja eins og kostur er að einkarekinni heilbrigðisstarfsemi.

Eitt fórnarlamb stefnu ráðherrans er forstjóri Sjúkratrygginga Íslands sem er að hætta eftir að ráðherrann ákvað að auglýsa starf hans laust til umsóknar og honum var orðið ljóst að hann yrði ekki endurráðinn.

Um leið undirbýr ráðherrann að auka umsvif hins ríkisrekna kerfis á kostnað einkarekinnar þjónustu, þó að ljóst megi vera að hagkvæmt sé að reka hluta heilbrigðiskerfisins utan stóra ríkisspítalans.

Formaður Læknafélags Reykjavíkur og formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja lýsa áhyggjum sínum af þessari þróun mála í grein í Morgunblaðinu í gær. Þar benda þeir á að sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar hafi sinnt 500.000 heimsóknum í fyrra. Á sama tíma hafi göngudeild Landspítala og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tekið samanlagt við 494.000 heimsóknum. Þrátt fyrir þessi miklu umsvif einkageirans taki starfsemi sérfræðilæknanna aðeins til sín um 6% af heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustunnar, enda sé sérfræðiþjónustan vel rekin.

Læknarnir tveir benda einnig á að samningur sérfræðilækna við Sjúkratryggingar renni út um næstu áramót og að læknar hafi án árangurs kallað eftir áætlun ráðherrans hvað samninginn varðar. Þeir hafi svo fengið vísbendingu í sjónvarpsfrétt þar sem fram hafi komið að ráðherrann telji samninginn til óþurftar og að stórfelld uppbygging göngudeilda sjúkrahúsanna sé það sem koma skuli í staðinn. Þetta gangi þvert á þróun í öðrum löndum og ekkert liggi fyrir um hvernig eigi að brúa bilið. Útlit er sem sagt fyrir að ráðherrann sé að setja kerfið í uppnám, sjúklingum að sjálfsögðu til ama, í þeim tilgangi að þrengja að einkarekstri og auka ríkisrekstur.

Í fyrradag ræddi Morgunblaðið við tvo aðra lækna sem einnig starfa í einkarekna hluta heilbrigðiskerfisins og settu nýlega upp sérhæfðu meðferðarstöðina Corpus Medica. Þeir benda á að einkarekstur í heilbrigðiskerfinu geti sparað mikið fé, enda sé kostnaðarvitund meiri. Þessir læknar eru meðal þeirra sem ekki hafa fengið samning við Sjúkratryggingar en benda á að slíkur samningur sé ekki fyrir læknana sjálfa heldur sjúklingana. Sjúklingarnir eigi rétt á endurgreiðslunum, en í umræðunni sé búið að snúa hlutunum á hvolf og segja að þetta sé samningur fyrir meðferðaraðilana. Það er mikið til í þessu og ef til vill myndi umræðan um þessi mál batna ef þau yrðu meira rædd út frá hagsmunum sjúklinga og minna út frá fordómum í garð þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem kjósa að starfa í einkageiranum.

Þó að margt megi vissulega bæta er íslenska heilbrigðiskerfið í grunninn mjög gott og með því að auka svigrúm sjálfstætt starfandi lækna og fyrirtækja á heilbrigðissviði má nýta fjármuni enn betur og byggja upp framúrskarandi heilbrigðiskerfi hér á landi. Hættan er þó sú, að heilbrigðisráðherra fái áfram óáreittur að brjóta niður kerfið og laga það að kreddum um að ríkið eitt megi veita heilbrigðisþjónustu. Fari svo mun þjónustan versna mjög og fórnarlömbin verða þá þeir sem leita þurfa þjónustu heilbrigðiskerfisins; allur almenningur í landinu.