Skeljungur FME verst allra frétta.
Skeljungur FME verst allra frétta.
Fjármálaeftirlitið verst allra frétta af því hvort stofnunin hafi til athugunar eða hafi lokið athugun á hæfi þriggja einstaklinga sem hafa stöðu sakbornings í máli sem Héraðssaksóknari rannsakar og varðar eignarhaldið á Skeljungi á árunum 2008-2013.

Fjármálaeftirlitið verst allra frétta af því hvort stofnunin hafi til athugunar eða hafi lokið athugun á hæfi þriggja einstaklinga sem hafa stöðu sakbornings í máli sem Héraðssaksóknari rannsakar og varðar eignarhaldið á Skeljungi á árunum 2008-2013. Einstaklingarnir sem í hlut eiga sitja í stjórnum þriggja skráðra fjármálafyrirtækja sem lúta eftirliti FME. Þar er um að ræða Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur, sem situr í stjórn VÍS, Guðmund Örn Þórðarson, stjórnarmann í Kviku og Einar Örn Ólafsson, stjórnarmann í TM. Svanhildur Nanna vék úr stóli stjórnarformanns VÍS í kjölfar þess að hún var handtekin og færð til skýrslutöku í tengslum við rannsóknina á fimmtudag í síðustu viku.

Lögum samkvæmt hefur FME eftirlit með hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna í skráðum félögum og getur á grundvelli þeirra tekið hæfi þeirra til sérstakrar skoðunar. Morgunblaðið hefur ítrekað leitað svara hjá FME um það hvort hæfi stjórnarmannanna fyrrnefndu hafi verið athugað en stofnunin segist ekki veita upplýsingar um einstök mál. Hins vegar segir í svari þaðan að FME leitist við að miðla upplýsingum um starfsemi sína eftir föngum. Það sé oftast gert í „samandregnum niðurstöðum eftir að athuganir eða rannsóknir hafa farið fram og þegar öll málsatvik hafa verið skoðuð“. ses@mbl.is