Aðalleikararnir í Chappaquiddick: Jason Clarke, Kate Mara og Ed Helms á frumsýningu myndarinnar í vor.
Aðalleikararnir í Chappaquiddick: Jason Clarke, Kate Mara og Ed Helms á frumsýningu myndarinnar í vor. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kennedy-fjölskyldan í Bandaríkjunum hefur löngum verið vinsælt viðfangsefni hjá kvikmyndagerðarmönnum. Nýjasta myndin sem tengist þessu „kóngafólki“ vestra nefnist Chappaquiddick og er eftir John Curran.

Kennedy-fjölskyldan í Bandaríkjunum hefur löngum verið vinsælt viðfangsefni hjá kvikmyndagerðarmönnum. Nýjasta myndin sem tengist þessu „kóngafólki“ vestra nefnist Chappaquiddick og er eftir John Curran. Þar er, eins og nafnið gefur til kynna, hermt af banaslysinu sem yngsti Kennedy-bróðirinn, Edward öldungadeildarþingmaður, varð valdur að sumarið 1969. Hann keyrði þá fram af lítilli brú á síðkvöldi með þeim afleiðingum að ung kona sem var með honum í bílnum, Mary Jo Kopechne, drukknaði. Sjálfur flúði Kennedy af vettvangi og tilkynnti ekki um slysið fyrr en morguninn eftir en þá höfðu vegfarendur þegar komið auga á bílinn í ánni og lík Kopechne fundist. Mikið fjölmiðlafár varð í framhaldinu og þóttu skýringar þingmannsins mistrúverðugar. Hann hlaut á endanum skilorðsbundinn dóm fyrir að flýja af vettvangi og tilkynna ekki strax um slysið.

Í myndinni er aðdraganda slyssins lýst en þó einkum eftirmálanum en vösk sveit sérfræðinga var ræst út til að slá skjaldborg um ímynd þingmannsins sem stefndi leynt og ljóst að því að verða forseti Bandaríkjanna, eins og bróðir hans sálugi, John F. Kennedy. Flestir eru sammála um að þeir draumar hafi drukknað þetta örlagaríka kvöld.

Einnig er viðkvæmt samband Kennedys við föður sinn málað sterkum litum en hann var orðinn sjúklingur á þessum tíma og lést skömmu síðar. „Þú verður aldrei mikill maður,“ segir Joe Kennedy við son sinn í myndinni.

Chappaquiddick hefur fengið býsna góða dóma, ekki síst aðalleikarinn, Ástralinn Jason Clarke.