Skúlagatan Hvíta húsið er það sem mjög hefur verið deilt um. Svona mun það líta út í umhverfinu eftir að hafa verið lækkað um eina hæð.
Skúlagatan Hvíta húsið er það sem mjög hefur verið deilt um. Svona mun það líta út í umhverfinu eftir að hafa verið lækkað um eina hæð. — Mynd/VA arkitektar
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð hefur samþykkt að fyrirhuguð bygging háhýsis á lóð á horni Skúlagötu og Frakkastígs, svokölluðum Skúlagötureit, verði lækkuð um eina hæð. Verður húsið sjö hæðir í stað átta eins og áform voru um í fyrstu.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt að fyrirhuguð bygging háhýsis á lóð á horni Skúlagötu og Frakkastígs, svokölluðum Skúlagötureit, verði lækkuð um eina hæð. Verður húsið sjö hæðir í stað átta eins og áform voru um í fyrstu.

Íbúar í nágrenninu höfðu mótmælt þessari byggingu harðlega. Töldu þeir að byggingin myndi skerða útsýni frá nálægum íbúðum og varpa skugga á svalir og útisvæði næstu íbúða.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu gerði Skipulagsstofnun athugasemdir og kom með ábendingar við deiliskipulag fyrir Skúlagötureitinn í apríl sl., alls tólf talsins. Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík svarar bréfi Skipulagsstofnunar. Hann tekur undir sumt en hafnar öðru.

Ein athugasemd Skipulagsstofnunar laut að því að ósamræmis gætti í tillögunni við heimildir um hæðir húsa í gildandi aðalskipulagi. Skipulagsfulltrúinn svarar því til að hin auglýsta tillaga hafi gert ráð fyrir því að á reitnum mætti koma fyrir allt að átta hæða byggingu.

„Heimildin fyrir þeirri hæð er ekki nægjanlega skýr í aðalskipulagi og því er gerð ívilnandi breyting á auglýstri tillögu og umrædd nýbygging lækkuð um eina hæð,“ segir skipulagsfulltrúinn.

Hann tekur ekki undir athugasemdir Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð uppbygging sé í ósamræmi við byggðamynstur svæðisins. Byggingin muni falla nokkuð vel að núverandi háhýsabyggð við Skúlagötu og ef eitthvað sé verði hún til bóta fyrir heildarsvip og ásýnd götunnar.

Tillagan verður auglýst í B-deild Stjórnartíðinda í kjölfarið á samþykkt borgarráðs og öðlast þá gildi.