Spennt Rebekka Rut er að vonum mjög spennt fyrir því að labba inn á völlinn með fótboltahetjum sínum. Hún hefur æft fótbolta með Fylki frá 5 ára aldri.
Spennt Rebekka Rut er að vonum mjög spennt fyrir því að labba inn á völlinn með fótboltahetjum sínum. Hún hefur æft fótbolta með Fylki frá 5 ára aldri. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nína Guðrún Geirsdóttir ninag@mbl.is Rebekka Rut Harðardóttir er 12 ára Árbæingur sem verður boltaberi Kia á fyrsta leik Íslands í sögu HM, þegar liðið mætir Argentínu 16. júní á Spartak Stadium í Moskvu.

Nína Guðrún Geirsdóttir

ninag@mbl.is

Rebekka Rut Harðardóttir er 12 ára Árbæingur sem verður boltaberi Kia á fyrsta leik Íslands í sögu HM, þegar liðið mætir Argentínu 16. júní á Spartak Stadium í Moskvu. Askja er umboðsaðili KIA á Íslandi en Kia Motors stendur fyrir valinu á boltabera Kia fyrir fjölmarga leiki á HM í Rússlandi. Bílaumboðið Askja fékk það verðuga verkefni að útnefna boltabera fyrir leik Íslands og Argentínu. Í kjölfarið var farið af stað með keppni fyrir áhugasama þar sem aðsóknin fór fram úr vonum, að sögn Elvars Þórs Hjörleifssonar, markaðsfulltrúa Kia á Íslandi.

Hátt í 300 börn fædd tímabilið 2004-2007 sendu inn myndbönd þar sem þau sýndu ástríðu sína fyrir fótbolta og framkvæmdu ýmsar fótboltakúnstir. Loks komust 10 krakkar í lokaúrslit í þáttunum Söguboltanum á RÚV þar sem Rebekka Rut varð hlutskörpust.

„Ég bara elska fótbolta“

Rebekka Rut segist hafa orðið mjög undrandi þegar henni var tilkynntur sigurinn. „Ég elska fótbolta og ég var bara að gera þarna það sem ég geri vanalega.“ Rebekka hefur æft fótbolta með Fylki frá því hún var fimm ára og fylgist einnig vel með fótboltanum þess utan, en Liverpool er hennar lið. „Það skemmtilegasta sem ég geri er að spila fótbolta, mæta á æfingar og æfa mig. Ég bara elska fótbolta.“

Spurð hvaða stöðu á vellinum henni finnst skemmtilegast að spila svarar Rebekka: „Ég hef spilað út um allt. En skemmtilegast finnst mér að spila á miðjunni. Gylfi og Aron Einar eru þar og það er lykilstaða í leiknum. En ég er líka að prófa aðrar stöður.“ Rebekka segist jafnframt vilja stefna á atvinnumennskuna í framtíðinni.

Stíf dagskrá í Moskvu

Rebekka mun fara til Rússlands með föður sínum, Herði Valssyni, daginn fyrir leikinn sögufræga og tekur þá við stíf dagskrá, að sögn þeirra. „Þetta verður mikið ævintýri, við mætum snemma á leikvöllinn til að æfa prógrammið en þetta er mjög stórt allt.“ Faðir hennar tekur undir. „Við erum að fara til Rússlands í fyrsta sinn og fáum að heimsækja helstu staðina í borginni á þessum stutta tíma á vegum Kia. Það er ljóst að það er mikið umstang í kringum þetta.“

Rebekka mun leiða fyrirliðana Lionel Messi og Aron Einar Gunnarsson út á völlinn. Spurð hvort hún sé stressuð fyrir hlutverkinu segist hún vera róleg. „Ég er aðallega spennt að hitta alla þessa fótboltamenn, þetta eru fyrirmyndirnar mínar.“

Rebekka segir marga spennta fyrir sína hönd og þá sérstaklega samnemendur hennar í Árbæjarskóla, þar sem ljóst er að margir munu fylgjast með og hvetja hana áfram í boltaberahlutverkinu.

„Þetta er búið að vekja rosalega mikil athygli í skólanum og það eru allir að segja að þeir ætli að horfa á leikinn.“