Friðrik Hallgrímsson fæddist í Reykjavík 9.6. 1872 og ólst þar upp. Hann var sonur Hallgríms Sveinssonar, dómkirkjuprests og síðar biskups Íslands, og k.h., Elínu Marie Bolette Sveinsson húsfreyju.

Friðrik Hallgrímsson fæddist í Reykjavík 9.6. 1872 og ólst þar upp. Hann var sonur Hallgríms Sveinssonar, dómkirkjuprests og síðar biskups Íslands, og k.h., Elínu Marie Bolette Sveinsson húsfreyju.

Hallgrímur var sonur Sveins Níelssonar, prófasts og alþingismanns á Staðarstað, og s.k.h., Guðrúnar Jónsdóttur húsfreyju, en Elína var dóttir Frederiks Christians Feveile, yfirlæknis við hermannaspítalann í Kaupmannahöfn, og k.h., Lovise Elisabeth Augustu Feveile, f. Obelits, húsfreyju.

Systir Hallgríms Sveinssonar var Elísabet Sveinsdóttir, móðir Sveins Björnssonar forseta og Ólafs Björnssonar, stofnanda og ritstjóra Morgunblaðsins. Önnur systir Hallgríms var Sigríður Sveinsdóttir, móðir Haraldar Níelssonar guðfræðiprófessors.

Eiginkona Friðriks var Bentína Hansína Björnsdóttir frá Búlandsnesi og eignuðust þau fimm börn. Meðal þeirra var Hallgrímur Friðrik, forstjóri Skeljungs hf.

Friðrik lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1891, cand. phil.-prófi frá Hafnarháskóla 1892 og embættisprófi í guðfræði þaðan 1897 en auk þess prófum í hebresku og kirkjufeðrafræði. Friðrik var prestur við Holdsveikraspítalann í eitt ár, sóknarprestur í Útskála 1899-1903, prestur Hins evangelísk-lútherska kirkjufélags Íslendinga í Argylebyggð í Kanada 1903-25, annar prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík 1925, varð prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 1938, dómprófastur í Reykjavíkurdómprófastsdæmi 1941 en fékk lausn frá embætti dómkirkjuprests og dómprófasts 1945.

Friðrik var afkastamikill rithöfundur kristilegra hugleiðinga og samdi fjölda barnabóka sem margar urðu vinsælar, en 1972 kom út úrval þeirra, Sögur séra Friðriks Hallgrímssonar.

Friðrik lést 6.6. 1949.