Leikarinn Guðmundur Felixson leikur drenginn með hjálminn.
Leikarinn Guðmundur Felixson leikur drenginn með hjálminn. — Morgunblaðið/Stella Andrea
Hjálmurinn , hljóðverk fyrir börn, er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík kl. 16 í Tjarnarbíói sunnudaginn 10. júní. Verkið er samspil tónlistar, leikhúss og ritlistar. Eins og nafnið bendir til kemur hjálmur við sögu.
Hjálmurinn , hljóðverk fyrir börn, er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík kl. 16 í Tjarnarbíói sunnudaginn 10. júní. Verkið er samspil tónlistar, leikhúss og ritlistar. Eins og nafnið bendir til kemur hjálmur við sögu. Líka ungur drengur, sem er með hjálminn á hausnum og ætlar ekki undir neinum kringumstæðum að taka hann af sér. En spyrjum að leikslokum því hugsanlega gerist eitthvað sem veldur því að drengurinn afræður að taka hjálminn af sér.

Kannski hafa áhorfendur líka eitthvað um það að segja því þeir skapa sýninguna ásamt leikaranum Guðmundi Felixsyni, sem les texta barnabóka- og verðlaunahöfundarins Finn-Ole Heinrich við tónlist nútímatónskáldsins Sarah Nemtsow. Í uppsetningunni renna saman texti og tónlist, tónlist verður að texta og texti að tónlist. Sýningin verður tekin upp og upptökunni síðan hlaðið upp á netþjón. Áhorfendur fá sérstakan kóða til þess að þeir geti nálgast upptökuna.

Hjálmurinn er verk íslensk/þýska nútímatónlistarhópsins, Ensemble Adapter, sem getið hefur sér gott orð á erlendum vettvangi og hefur Hjálmurinn víða slegið í gegn. Í hópnum eru Kristjana Helgadóttir, bassaflauta, Ingólfur Vilhjálmsson, kontrabassaklarinett, Gunnhildur Einarsdóttir, harpa, Mattthias Engler, slagverk, og Zoé Cartier, selló.