„Það vantar ennþá talsvert upp á,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaranefndar Ljósmæðrafélags Íslands, við Morgunblaðið og vísar til nýgerðs kjarasamnings ljósmæðra sem félagið hafnaði í gær. Eins og kom fram á mbl.

„Það vantar ennþá talsvert upp á,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaranefndar Ljósmæðrafélags Íslands, við Morgunblaðið og vísar til nýgerðs kjarasamnings ljósmæðra sem félagið hafnaði í gær.

Eins og kom fram á mbl.is hljóðaði nýi samningurinn upp á 4,21 prósents launahækkun og innspýtingu fjármagns inn í heilbrigðisstofnanir frá heilbrigðisráðuneytinu. Útlit er fyrir að samningaviðræður muni dragast eitthvað áfram, en eftir helgi mun kjaranefnd Ljósmæðrafélagsins funda um næstu skref.

Hefði viljað gera miklu betur

Aðspurð segist Katrín Sif sjálf ekki hafa verið ánægð með samninginn sem um ræðir. „Við í kjaranefndinni vorum komin þarna með málamiðlun og okkur þótti því rétt að félagsmenn myndu kjósa sjálfir um hana,“ segir Katrín Sif, en tæplega 70% þeirra sem þátt tóku í atkvæðagreiðslunni greiddu atkvæði gegn samningnum.

Mögulega fjölgar uppsögnum

„Maður getur svo sem gert sér það í hugarlund að uppsögnum muni fjölga frekar en að það dragi úr þeim,“ segir Katrín Sif ennfremur, en fjöldi ljósmæðra hefur þegar sagt upp störfum og munu uppsagnirnar taka gildi 1. júlí næstkomandi.

Katrín Sif segir að eðlilega taki þessi barátta á ljósmæður og nefnir að á Landspítalanum muni 19 ljósmæður ganga út um næstu mánaðamót ef ekkert breytist. „Það er mjög rafmagnað andrúmsloftið þar,“ segir Katrín Sif og bætir við: „Það eru nokkrar hættar nú þegar. Þetta eru allt konur sem fara út með alveg gríðarlega reynslu.“ teitur@mbl.is