[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Nína Guðrún Geirsdóttir ninag@mbl.is Fjölgun umsókna í háskóla landsins er meiri en von var á. Í ár munu margir framhaldsskólar útskrifa tvo stúdentahópa, sem útskýrir að einhverju leyti þessa metaðsókn í háskóla landsins.

Sviðsljós

Nína Guðrún Geirsdóttir

ninag@mbl.is

Fjölgun umsókna í háskóla landsins er meiri en von var á. Í ár munu margir framhaldsskólar útskrifa tvo stúdentahópa, sem útskýrir að einhverju leyti þessa metaðsókn í háskóla landsins. Ákveðið var að stytta nám framhaldsskólanna í þrjú ár frá og með hausti 2015. Í ár kemur því upp sú sérstaka staða að margir framhaldsskólanna útskrifa nú tvo hópa nemenda, en um er að ræða bæði þá sem ljúka við þriggja ára nám og einnig þann síðasta hóp nemenda sem stunda nám í fjögur ár.

Mesta fjölgun frá hruni

Fjölgun í grunnnámi við Háskóla Íslands var 12% milli ára, sem er ein mesta fjölgun sem skólinn hefur séð. 5.000 umsóknir bárust í grunnnám og 3.200 í framhaldsnám, sem er 12,5% aukning. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að ekki hafi verið slík fjölgun umsókna við skólann frá því fyrir hrun. „Þetta er ekki metár, en eftir hrun fór fjöldi umsókna aðeins yfir 9.000, en þá höfðum við allar dyr opnar og tókum við stórum hópi nemenda. En þetta er mjög stórt.“ Jón Atli segir háskólann vera í stakk búinn til að taka við slíkum fjölda en það muni reynast áskorun. „Þetta er bara verkefni sem við tökum alvarlega og við munum gera okkar besta til að mæta fjölguninni innan fjárlaga og þeirra fjármuna sem okkur er úthlutað. Þetta mun auðvitað reyna á starfsfólk og innviði en við teljum okkur geta leyst þetta verkefni.“ Fjölgun var í flestum deildum en athygli vakti að í leikskólafræði var fjölgunin 60% og menntavísindin eru almennt í sókn. ,,Ánægjuleg þróun og nauðsynleg,“ segir Jón Atli.

Metfjöldi í HR

Yfir 3.000 umsóknir hafa borist Háskólanum í Reykjavík sem er metfjöldi í skólanum. Fjölgunin er heilt yfir 11% milli ára. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, segir tölurnar hafa komið sér á óvart. „Vegna aðstæðna áttum við von á fjölgun en ekki endilega þessari fjölgun. Sérstaklega höfum við verið ánægð með mikla fjölgun í framhaldsnámi hjá okkur en þar fjölgaði umsóknum um 19%. Svo við erum gífurlega sátt og ánægð,“ segir Ari Kristinn. HR rataði á dögunum í 89. sæti á lista Times Higher Education yfir hundrað bestu unga háskóla í heiminum í dag. Ari segir viðurkenninguna mikla og hún feli í sér hvata til að gera enn betur og halda áfram að efla háskólann.

Eldri hópur á Bifröst

Í Háskólanum á Bifröst er ljóst að einhver fjölgun hefur orðið milli ára. Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, segir ljóst að fjölga muni töluvert í grunnnáminu, þó tölur liggi ekki enn ljósar fyrir þar sem enn sé opið fyrir umsóknir. Nú sé þó vitað að fjöldi umsókna í framhaldsnám er svipaður og í fyrra eða um 200. Hans reynsla er sú að ekki sé alltaf að marka heildarfjölda umsókna. „Við sjáum að margir sækja um á nokkrum stöðum og hafa ekki tekið lokaákvörðun með haustið. Þá verða nemendur að mæta okkar viðmiðum um inntöku.“ Spurður hvort þeir hafi gert sérstakar ráðstafanir vegna aukins fjölda útskrifaðra nemenda úr menntaskólunum segir Vilhjálmur svo ekki vera. „Mjög stór hluti af þeim sem sækja um hjá okkur eru eldri nemendur. Meðalaldur er milli þrítugs og fertugs, svo að margir okkar nemenda hafa einhvern tíma tekið sér hlé frá námi. Svo við eigum ekki von á að stór hópur flæði til okkar núna.“