Svanur Guðmundsson
Svanur Guðmundsson
Eftir Svan Guðmundsson: "Þessir flokkar eru með 46% atkvæða á bak við sig og telja sig sigurvegara. Minnihlutinn er með 48% atkvæða á bak við sig, en með færri fulltrúa."

Í borgarstjórnarkosningunum 26. maí sl. voru 16 flokkar í framboði. Þrír af þeim höfðu stjórnað borginni undanfarin fjögur ár, allt flokkar sem voru sammála um að láta rödd Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina ekki heyrast á síðasta kjörtímabili. Fráfarandi meirihluti var með sterkt umboð eða 62% atkvæða en minnihlutinn var með 36% atkvæða á bak við sig. Ef Björt framtíð er tekin út, fengu meirihlutaflokkarnir (S+VG+P) 2014 samtals 46% atkvæða í kosningunum 2014. Borgarstjórnarmeirihlutinn var samansettur af öllum þeim flokkum sem náðu inn 2014 nema Sjálfstæðisflokki og Framsókn og flugvallarvinum. Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn úr fyrrverandi minnihluta borgarstjórnar sem nær inn fulltrúum.

Stærstu mál borgarstjórnarkosninganna nú voru húsnæðismál, samgöngumál, málefni skóla, skipulagsmál og velferðarmál. Fráfarandi meirihluti og borgarstjóri voru dugleg að koma sér á framfæri með alls konar glensi og gamni sem hefur verið í boði í borginni á síðasta kjörtímabili. Þau voru hins vegar öskufljót að láta sig hverfa ef vandamál komu upp. Sá feluleikur er reyndar í góðu samræmi við leiðarstef þeirra að allt sem úrskeiðis fer sé öðrum að kenna.

Margir flokkar voru í boði í nýafstöðnum kosningum og helmingur þeirra komst inn eða átta flokkar. Fylgið dreifðist mikið en klárlega slógust tveir turnar um atkvæði borgarbúa. Annars vegar var Dagur í boði með óbreyttu ástandi og hins vegar Sjálfstæðisflokkur sem boðaði breytingar á borginni. Sigurvegari þeirrar baráttu var klárlega Sjálfstæðisflokkurinn með 31% atkvæða en ekki Dagur með sín 26%.

Merkilegt nokk tilkynntu Samfylking og Píratar eftir kosningar að þeir ætluðu ekki að virða vilja þriðjungs kjósenda eða þá sem kusu Sjálfstæðisflokk eða Miðflokk með því að útiloka samstarf við þá. Líta má svo á, að í því felist tilraun til að sniðganga niðurstöðu kosninganna.

Nú, þegar þetta er skrifað reyna þessir þrír flokkar sem stjórnuðu borginni síðast að mynda meirihluta með Viðreisn. Þessir flokkar eru með 46% atkvæða á bak við sig og telja sig sigurvegara. Minnihlutinn er með 48% atkvæða á bak við sig, en með færri fulltrúa. Þannig fóru kosningarnar þegar atkvæðum var raðað á flokka. Ef skoðað er hvað flokkarnir, sem stóðu að fyrrverandi meirihluta (S+VG+P), fengu í nýafstöðnum kosningum, þá var það aðeins 38% atkvæða. Þeir sem sagt lækka um 8 prósentustig í fylgi, fara úr 46% í 38%. Sjálfstæðisflokkur fer úr 26% í 31% og bætir við sig 5 prósentustigum.

Björt framtíð þraut örendi en Viðreisn kemur inn í staðinn. Björt framtíð fékk 16% atkvæða 2014 en Viðreisn, sem fékk 8% atkvæða núna, virðist ætla að reisa við veikan meirihluta og leggur sjálfa sig undir. Í þeirri ákvörðun Viðreisnar felst áhætta, sérstaklega ef flokkurinn fær ekki framgengt gagngerum breytingum á bæði stefnuskrá meirihlutans og skipan í embætti. Það er alveg sama hvaða framfaramálefnum Viðreisn tekst að koma inn í stefnuskrána ef sömu kerfisjálkarnir verða áfram við völd. Þá verður aldrei litið á Viðreisn nema sem fjórða hjólið sem kom inn í stað Bjartrar framtíðar.

Óhætt er að segja að orð og efndir Samfylkingar, VG og Pírata fara ekki saman. Það er augljóst að þessir flokkar biðu afhroð í kosningunum en þeir fengu ekki náðarhögg.

Höfundur hefur komið að kosningastjórn fyrir sveitar- og alþingiskosningar undanfarin kjörtímabil. svanur@husaleiga.is