— AFP
Sergio Agüero verður íslenska landsliðinu án efa erfiður andstæðingur í fyrsta leiknum á HM í Moskvu næsta laugardag.

Sergio Agüero verður íslenska landsliðinu án efa erfiður andstæðingur í fyrsta leiknum á HM í Moskvu næsta laugardag. Hann mætir til leiks með Argentínu eftir að hafa orðið enskur meistari með Manchester City og skorað að jafnaði mark á 91 mínútu fresti í öllum mótum á nýliðnu keppnistímabili.

Agüero, sem var í nokkur ár tengdasonur Diego Maradona, er þrítugur en hann fæddist í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, 2. júní 1988. Hann var í röðum Independiente frá níu ára aldri og þar til hann fór 18 ára gamall til Atlético Madrid árið 2006. Manchester City keypti hann þaðan árið 2011 og frá þeim tíma hefur framherjinn snöggi skorað 143 mörk í 206 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Agüero hefur leikið með argentínska landsliðinu frá 18 ára aldri. Hann á að baki 85 landsleiki, verður væntanlega orðinn tíundi leikjahæsti Argentínumaðurinn áður en riðlakeppninni lýkur, og er þriðji markahæstur með 37 mörk.