Tónskáldið Jórunn Viðar, sem lést í fyrra, hefði orðið 100 ára í ár.
Tónskáldið Jórunn Viðar, sem lést í fyrra, hefði orðið 100 ára í ár. — Morgunblaðið/Golli
Sönglög Jórunnar Viðar fá kærleiksríka meðferð hjá hópi ungra, íslenskra tónlistarmanna á tónleikunum Vökuró – Sönglög Jórunnar Viðar í nýjum litum , sem haldnir verða kl. 20 í Gamla bíói á sunnudagskvöld.

Sönglög Jórunnar Viðar fá kærleiksríka meðferð hjá hópi ungra, íslenskra tónlistarmanna á tónleikunum Vökuró – Sönglög Jórunnar Viðar í nýjum litum , sem haldnir verða kl. 20 í Gamla bíói á sunnudagskvöld. Saman og hvert í sínu lagi ljá listamennirnir verkum Jórunnar persónulegan blæ með á stundum óvæntri hljóðfæraskipan og mörgum fögrum söngröddum.

Flytjendur á tónleikunum eru: Sóley Stefánsdóttir, Sigríður Thorlacius, Katrína Mogensen, Alexandra Baldursdóttir, Högni Egilsson, Snorri Helgason, Mr. Silla, Ólöf Arnalds, Skúli Sverrisson, Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir og Margrét Arnardóttir.

Tónleikarnir eru á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík.

Jórunn Viðar, sem lést í fyrra, hefði fagnað aldarafmæli sínu í nóvember. Um tveggja áratuga skeið var hún eina konan í Tónskáldafélaginu. Það þótti býsna merkilegt, en sjálf mun hún hafa beðið um að vera ekki kölluð kventónskáld. „Ég tala aldrei um karltónskáld,“ var haft eftir henni. Jórunn nam píanóleik í Þýskalandi en varð frá að hverfa vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Síðar stundaði hún nám í tónsmíðum við Juilliard í Bandaríkjunum. Hún var frumkvöðull á sviði ballett- og kvikmyndatónlistar hér á landi auk þess sem hún samdi fjölmörg þjóðþekkt sönglög. Yfirskrift tónleika unga fólksins, Vökuró , vísar í ljóð með undurblíðum tóni eftir Jakobínu Sigurðardóttur, sem Jórunn samdi lag við. Björk söng lagið inn á plötuna Medúlla árið 2004 og þá má segja að lagið hafi orðið frægt á alþjóðavísu.