Sigrún Stefanía Ingibjörg Angantýsdóttir fæddist í Glerárhverfi á Akureyri 18. júlí 1943. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Sauðárkróki, 27. maí 2018.

Foreldrar Sigrúnar voru Björg Dagmar Bára Jónsdóttir, f. 19. nóvember 1919 í Lambanesi í Fljótum, Skagafirði, d. 16. ágúst 1987, og Angantýr Elínór Jónsson, f. 16. ágúst 1910 í Gröf í Svarfaðardal, d. 23. september 1982. Systkini Sigrúnar eru 1) Lára Salóme, f. 1938, gift Gunnari Haraldssyni, d. 1989. Núverandi sambýlismaður Láru er Snæbjörn Guðbjartsson. 2) Sigurgeir, f. 1939, d. 2012, fyrr kvæntur Sigríði Grétu Þorsteinsdóttur. Síðari kona hans var Þórey Jóhanna Dóra Þorsteinsdóttir. 3) Anton Jón Ingvar, f. 1940, kvæntur Höllu Soffíu Jónasdóttur. 4) Guðmar Birkir, f. 1945, kvæntur Hafdísi Guðnadóttur. 5) María Kristjana, f. 1948, d. 2006, gift Benedikt Agnarssyni. 6) Matthías Hafþór, f. 1952. 7) Óskírður drengur Angantýsson, f. 1953, d. 1953. 8) Sigurlaug Sæunn, f. 1958, gift Ómari Eyjólfi Sævarssyni.

Sigrún var í sambúð með Ingimar Vorm Kristjánssyni en þau slitu samvistum. Eignuðust þau einn son, Björn Angantý, f. 13. janúar 1967. Björn eignaðist börnin Gunnar Björn, f. 21. september 2004, og Íseyju Rún, f. 13. ágúst 2009. Eiginkona Björns, gift 2015, er Halldóra Bergsdóttir, f. 24. ágúst 1969. Börn hennar af fyrra hjónabandi eru Ester Ósk, Sævar Örn og Helgi Þór. Eftirlifandi sambýlismaður Sigrúnar er Jón Sigurbjörn Dalmann Pétursson, f. 3. apríl 1942. Börn hans af fyrra hjónabandi eru Sigríður Huld og Símon Guðvarður.

Sigrún, eða Silló, eins og hún var alltaf kölluð, bjó mestan hluta ævi sinnar á Sauðárkróki. Ung fór hún að vinna í matvöruverslunum, lengst starfaði hún hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, fyrst í Gránu og síðast í Skagfirðingabúð. Silló söng með ýmsum kórum, þar á meðal Kirkjukór Sauðárkróks um árabil. Hún var félagi í Bridgefélagi Sauðárkróks.

Útför Sigrúnar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 9. júní 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.

Ég hitti tengdamóður mína, Silló eins og hún var alltaf kölluð, fyrst fyrir sjö árum en kynntist henni í raun ekki af alvöru fyrr en í janúar á þessu ári. Þá fluttu hún og Jón til okkar vegna veikinda Sillóar og voru hjá okkur þar til yfir lauk.

Silló var mikil fjölskyldumanneskja. Hún elskaði fólkið sitt út af lífinu og naut þess að vera hjá okkur og geta hitt barnabörnin sín reglulega. Þegar hún talaði um barnabörnin sín þá átti hún ekki bara við sín tvö heldur líka börnin mín, tengdabörn og barnabörn. Hún tók þeim bara eins og þau væru hennar eigin enda tala þau öll alltaf um „ömmu Silló“ þegar um hana er rætt. Henni var líka mjög annt um systkini sín og fjölskyldur þeirra og var mikið í mun að halda góðu sambandi við þau. Hún tók til að mynda við ömmuhlutverkinu fyrir barnabörn Maju systur sinnar eftir hennar dag. Fjölskyldumótin, sem hafa verið árlegir viðburðir voru í miklu uppáhaldi hjá Silló. Þar kom fólkið hennar saman, rifjaðar voru upp gamlar minningar, full borð af kræsingum og auðvitað sungið smá. Þetta voru fyrir henni hinar fullkomnu helgar.

Allir sem þekktu Silló vita að hún var mjög ættrækin og einstaklega fróð um ættir sínar og samferðafólks síns. Hún gat rakið ættartengsl fram og til baka, hver var giftur hverjum og hverra manna hinir og þessir voru. Oft á tíðum í spjalli okkar var ég löngu búin að týna þræðinum um hver var hvað. Ættartengsl voru þó ekki eina áhugamál Sillóar heldur var hún ein sú mesta áhugamanneskja um íþróttir sem ég hef kynnst á ævinni.

Það var í raun alveg sama hvaða íþrótt var um að ræða, hún hafði gaman af því að horfa á allt, þó að óhætt sé að segja að körfuboltaleikir með „strákunum hennar“ í Tindastól hafi alltaf verið í uppáhaldi. Hún mætti á völlinn við hvert tækifæri á meðan heilsan leyfði og eftir það passaði hún að fylgjast með öllum leikjum þeirra í sjónvarpinu. Hún hélt líka mikið upp á fótbolta og þá sérstaklega ef uppáhaldsliðið hennar, Liverpool, var að spila. Það var einmitt það sem hún og Bjössi gerðu kvöldið fyrir andlátið, horfðu á fótboltaleik saman.

Silló var glaðlynd og jákvæð kona sem hafði þurft að reyna ýmislegt í lífinu. Hún lagði ekki í vana sinn að opinbera líðan sína eða bera áhyggjur sínar á torg. Hún var einstaklega mikill húmoristi og með frekar dökkan húmor, sérstaklega miðað við aldur. Hún var mjög staðföst og fylgin sér sem gat verið kostur en gat líka verið henni erfitt þegar hún var búin að bíta eitthvað í sig sem ekki varð haggað.

Eftir stendur minning um manneskju sem elskaði fólkið í kringum sig, mátti ekkert aumt sjá, vildi öllum vel en gleymdi að hlúa að sjálfri sér. Þakklæti fyrir að hafa getað verið til staðar fyrir hana og Jón þegar þau þurftu mest á því að halda.

Elsku Silló mín, takk fyrir þessa mánuði sem við fengum til að kynnast almennilega, fyrir öll skemmtilegu samtölin okkar, fyrir allan fróðleikinn sem þú gafst okkur og það hvað þú tókst alla tíð vel á móti börnunum mínum.

Guð geymi þig.

Halldóra Bergsdóttir.

Það sem kemur upp í hugann þegar við stöndum frammi fyrir sviplegu fráfalli í fjölskyldunni og að reyna af veikum mætti að koma á blað nokkrum orðum um það sem minningabankinn geymir frá árunum sem við systkinin áttum saman í leik og starfi er mér engan vegin auðvelt. Silló, eins og hún var almennt kölluð, er fallin frá eftir alvarleg veikindi. Hún tók þeim fréttum af yfirvegun og kvaðst taka því sem að höndum bæri.

Hún var dugnaðarforkur og taldi óþarfa að gera mikið úr þessu og ekki ástæðu til að æðrast. Það fór samt svo að rétt fyrir áramótin var ákveðið að hún færi til Bjössa og Halldóru tengdadóttur sinnar sem áttuðu sig á hvert stefndi og ákváðu í framhaldi að hún og Jón Dalmann, sambýlismaður hennar til fjölda ára, fengju þá aðhlynningu sem þessi staða kallaði á.

Fljótlega kom í ljós að um bata var vart að ræða. Sameiginlega var þá staðan metin og Silló tók þá ákvörðun að hún ætlaði sér að duga fram yfir fermingu Gunnars Björns hinn 20. maí sl.

Eins og oft áður hefur Málmeyjarfjölskyldan þurft að lúta í gras fyrir manninum með ljáinn og þannig hefur smám saman kvarnast úr hópnum á umliðnum árum. Það skiptast á skin og skúrir hjá fjölskyldunni eins og gengur og við höfum reynt að mæta því með æðruleysi en erfiðast hefur verið þegar börn og unglingar falla frá. Þannig höfum við til fjölda ára kallað fjölskylduna saman á árlegt fjölskyldumót ásamt mökum og börnum til að efla tengslin og þétta raðirnar. Þar minnumst við þeirra sem fallnir eru og tengjum saman kynslóðirnar.

Við höfum það í huga að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Við höfum verið svo heppin að halda hópnum saman og þannig sameinast í styrk þegar áföllin dynja yfir.

Í uppeldinu lærðum við að lífið og tilveran eru brothætt fyrirbæri og ekki sjálfgefið að dvöl okkar hér á Hótel Jörð væri dvöl án áfalla. Einnig það að lífið er sterkara en dauðinn.

Ég sem þessar línur rita hef sterka sannfæringu fyrir því að við lok jarðlífsins taki við dvöl í Sumarlandinu. Eftir dvöl þar og aukinn andlegan þroska sé val um æðri heima sem engan enda taki. Það er okkar sannfæring að jarðlífið sé bara fyrsti áfangi á langri vegferð.

Frá því að foreldrar okkar féllu frá höfum við stórfjölskyldan notið þess að eiga samastað á Hólmagrundinni hjá þeim Silló og Jóni Dalmann en nú er orðin vík milli vina og á þessum tímamótum sem orðin eru vil ég fyrir hönd fjölskyldunnar þakka fyrir alla þá alúð og gestrisni sem við höfum notið þar og fyrir allar þær veitingar sem þau hafa veitt af mikilli rausn. Það er sagt að enginn viti hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Eitt er þó alveg ljóst, Skagafjörðurinn verður um ókomin ár vettvangur fjölskyldunnar þar sem vina- og tryggðabönd verða hnýtt sem aldrei fyrr. Við munum halda á lofti minningu þeirra fjölskyldumeðlima, ættingja og vina sem farnir eru.

Það er ómetanlegt að eignast góða ættingja og vini, það þekkjum við og viljum koma á framfæri alúðarþökkum fyrir góð kynni. Þau eru og verða ofarlega í huga okkar.

Með samúðar- og þakkarkveðju,

Anton og Halla.